Við vöknuðum snemma í morgun, ekki við hanagal þar sem hanarnir í Asíu byrja alltaf að gala upp úr þrjú að nóttu og við því búin að venja okkur af því að taka mark á þeim, heldur við vekjaraklukku. Ætlunin var að fara í dagsgöngu um svæðið kringum Tat Lo sem er rómað fyrir náttúrufegurð og skemmtileg þorp heimamanna.
Við lögðum af stað átta að morgni, galvösk og spræk að vanda. Með okkur í gönguför var ein frönsk og önnur svissnesk samferðakona og svo leiðsögumaðurinn á áttræðisaldri, vel til hafður, nýgreiddur og með nýpússaðan göngustafinn til taks.
Við gengum frá morgni fram á miðjan dag og ekki annað hægt að segja en að margt hafi fyrir augu borið. Við sáum nokkra gullfallega fossa sem við urðum að brjóta okkur leið gegnum kjarr og akra til að komast að og klifra upp hlíðar til að njóta betur. Við óðum smásprænur og litla læki og meira að segja hrísgrjónaakra þangað til við urðum drullug upp að hnjám. Meðfram vegunum sem við gengum var allsstaðar sægur af skærgulum fiðrildum sem minntu helst á fljúgandi sóleyjar.
Við heimsóttum mörg hefðbundin þorp á göngunni, þorp þar sem líf þorpsbúa hefur lítið breyst í gegnum aldirnar ef frá eru talin sjónvarpstækin, rafmagnið og gervihnattadiskar. Það var ansi skemmtilegt að sjá andstæðurnar: bastkofar á stultum og börn með hor niður á höku annars vegar og svo skínandi nýjar vespur og sjónvarpstæki hins vegar.
Af því hefðbundnara sem við sáum var vinna heimamanna. Í öllum þorpunum hafði fólk lagt til þerris ýmist rauðan chili, tóbak eða banana í skífum. Maískólfar voru hins vegar strengdir upp á þráð til þurrkunar. Smástelpurnar báru ungbörn í sling á mjöðminni á meðan eldri telpur hömuðust við að berja hrísgrjónin til að skilja að hismið og grjónið. Drengirnir vörðu tíma sínum niðri við ánna að veiða fisk eða heima við að veiða gulu fiðrildin í glerflöskur. Innan um allt þetta hlupu að sjálfsögðu húsdýrin milli fótanna á manni: hænsnin og hinir fjölmörgu ungar þeirra, svínin svört og bleik með litla rítandi grísi í eftirdragi og hundar með nefið í öllum koppum, tjóðraðar geitur og beljur á flakki, endur í sefinu, meira að segja sáum við einn dúfnakofa!
Í síðasta þorpinu áðum við í skugganum af stóru tré og fengum okkur sæti á stultupalli. Þar bar tannlaus, gömul kona papaya á borð og banana líka. Svo sat hún og tottaði vatnspípuna sína en gjóaði augunum á okkur falang af og til, kannski vildum við líka fá smá smakk af vatnspípunni?
Á leiðinni heim var aldraði leiðsögumaðurinn okkar, sem var okkar allra sprækastur, svo sætur að sýna okkur ýmislegt úr viðjum náttúrunnar. Við fengum að sjá jurtina sem spinnur baðmull og hve mjúk hún er svona óunnin beint úr fræinu. Hann óð líka inn á akra til að skýra fyrir okkur hrísgrjónaræktun og hvernig uppskeran er unnin með þreskivélum. Öðru sinni óð hann inn á akur og tók að grafa upp rætur, kom síðan sigri hrósandi með ferskar jarðhnetur beint úr jörðinni. Þær bragðast eins og baunaspírur, stökkar og safaríkar, algjört nammi.
Þegar við komum heim í kofa eftir gönguferðina vorum við öll orðin ansi sólstungin og þreytt, sumir meira að segja sólbrunnir eins og gengur og gerist. En það er kannski vel af sér vikið svona á fyrsta vetrardegi.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli