Á okkar síðasta degi í elsku Laos tókum við rútuna frá Tat Lo aftur til Pakse. Rétt eins og á leiðinni út eftir var okkur troðið inn í gamla rútu með viftum í loftinu sem bílstjórinn, af sinni alkunnu skynsemi, slökkti samviskusamlega á þegar skrjótan var komin á fljúgandi ferð. Hver þarf viftur þegar til eru opnir gluggar, ég bara spyr.
Að þessu sinni var öll aftasta röð rútunnar undirlögð munkum í appelsínugulu kuflunum sínum. Með í för voru líka litlir hænuungar sem við sáum aldrei sama hve við snérum upp á okkur, en heyrðum aðeins tístið í. Kannski voru þeir í farangurshólfinu, eða upp á þaki, hver veit. Svo var líka ein hæna með okkur í rútunni en við urðum lítið vör við hana, það var aðeins fyrst þegar við vorum nýsest að hún gerði tilraun til að sleppa úr prísund sinni og tók að blaka vængjunum framan í vagnstjórann. Ótrúlega tilviljunin er sú að ég var einmitt að taka mynd yfir vagninn þegar hænan tók að steyta görn svo nú á ég mynd af hnökkum samferðafólksins, viftunum í loftinu og hálfu vænghafi.
Ferðin til Pakse gekk þrautalaust fyrir sig og ég náði að horfa ekki of tregafullum augum á landslagið þjóta hjá. Við erum eftir allt saman að kveðja Laos og þetta var síðasta rútuferðin okkar svo þið láið mér ekki að hafa verið smá angurvær. Það var helst að reykingastybban færi í mann því einhver var alltaf að svæla reyk yfir okkur hin með því að púa sígarettur. Þegar við fórum að leita að sökudólgnum sáum við okkur til mikillar undrunar að einn af munkunum sat og reykti milli þess sem hann dreypti á eitruðum koffíndrykk!
Ég get óhikað mælt með Laos við alla, komið hingað og upplifið. Við bjuggumst aldrei við að vera heilan mánuð í landinu en svona er að hrífast af landspildu, þá vill maður vera um kjurrt. En vegabréfsáritunin er að renna út og þá fyrst nennum við Baldur að drattast af stað og segja bless. Knús í krús elsku Laos, kop chai lai lai.
Í fyrramálið er það morgunflugið til Siem Reap í Kambódíu.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli