Það kom þá að því að við heimsæktum Kambódíu í annað sinn. Héðan urðum við að hverfa í lok júlí með mig draghalta og mína sýktu löpp. Nú er öldin hins vegar önnur, löppin í góðum málum og við tilbúin til að sjá merkustu minjar Suðaustur Asíu.
Við flugum hingað til Siem Reap með Lao Airlines. Flugið tók einn tíma og því var aðeins um flugtak og lendingu að ræða, ekkert beint flug þar á milli. Vélin var full af Hollendingum og Frökkum í pakkaferðum, við sárvorkenndum þeim að þurfa að hanga svona saman. Því þó við tölum ekki reiprennandi frönsku eða skiljum orð í hollensku þá skynjuðum við vel spennuna í sitthvorum hópnum. Oh la la.
Við erum komin á sama gistiheimilið og við vorum á síðast, Queen Villa Angkor, og ég heimtaði meira að segja sama herbergið. Það kom nefnilega í ljós að það var langstærst. Eina sem hefur breyst á þessum vígstöðvum er að við heimilishaldið hefur bæst lítill og hrjáður kettlingur sem er óðum að vaxa og dafna.
Í kvöld ætlum við að njóta þess að heimsækja mexíkóska veitingastaðinn sem hér er að finna, og ef mig minnir rétt þá er hægt að fá þar alveg ruddalega góðan appelsínu/mangó hræring.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli