Nú er vikan okkar í Stokkhólmi senn á enda og við hæstánægð með dvöl okkar hér. Borgin er afskaplega falleg; hrein, bein og björt. Við erum þó mestmegnis búin að njóta þess að vera innandyra í hlýjunni hjá Áslaugu og Þórdísi og froskaforeldrum þeirra.
Það sem á daga okkar hefur drifið er göngutúr í frostinu til að kíkja í sjónvarpsturninn og sötra þar á kakói, labb um skóginn og rifrildi um hver fengi að stýra jeppanum sem börnin sofa í. Við höfum líka notið þess að versla inn í alvöru búð og eldað mikið af góðum mat. Já, og smakka nýjan mat því í Stokkhólmi fæst kavíar með banönum og sítrónuís með lakkrís! Við kíktum líka nokkrar ferðir niður í miðbæ Stokkhólms með t-banan niður í T-Centralen og höfum gengið um Hötorget, Drottninggatan, Stureplan og mælt okkur mót undir Sveppnum.
Að sjálfsögðu erum við búin að vera í frænku- og frændahlutverkinu í bland við annað. Þannig erum við búin að heimsækja leikskólann hennar Áslaugar og í anda leikskólans fara í marga leiki við stelpuna, m.a. jóga þar sem frændi fór í hundinn og dömuleik þar sem unga daman fékk lánaðan víetnamska hefðarfrúarhattinn minn og tók fram búðarpoka og fleiri flotterí til að þræða upp á handleggina. Síðan kenndum við henni óvart sérkennilega frasa á borð við obsadeisí og oh la la. Kannski þess vegna sem ég fékk það á hreint frá tveggja ára barninu að við værum bestu vinkonur. Við fylgdumst líka með henni baka piparkökur og skottast um í náttkjólnum sem við færðum henni að gjöf, með hárspennur í hárinu og hárteygjur á litlum, útglenntum fingrum. Loks fengum við að passa Þórdísi sem kúrði í hálsakoti frænda síns meðan ég kúrði í sófahorninu og Baldur las fyrir okkur upp úr Siddhartha hans Hermanns Hesse.
Þá má ekki gleyma því að við hittum einnig kólumbísk-sænska parið þau Fernando & Sofiu, sem við kynntumst í Laos og hittum aftur í Kambódíu. Við gengum með þeim um Gamla Stan og áðum á kaffihúsi sem er í magnaðri kjallarahvelfingu þar sem mér fannst ég helst vera uppi á tímum persóna Alexanders Dumas. Ég beið bara eftir að skytturnar eða greifinn af Monte Cristo kæmu askvaðandi inn með peningapyngju sem þeir myndi vippa undan skykkjunni og kasta á borðið fyrir ölkrús. Við létum okkur hins vegar nægja að smakka heita eplaköku með vanillusósu, hættum okkur því næst út í frostið aftur til þess eins að finna annan stað til að setjast inn á og affrysta limi og lokka. Í millitíðinni náðum við hins vegar að sjá Svía í hinni merku íþrótt íshokkí. Þá var maður nú kominn til Svíþjóðar fyrir víst.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli