laugardagur, 8. desember 2007

Stefnumót við Veðramót

Við áttum stefnumót við Veðramót í gær, íslenska mynd úr smiðju Guðnýjar Halldórsdóttur sem hefur að skarta góðum leikurum.

Rétt um það leyti sem myndin átti að hefjast vorum við stödd við miðasöluna í Háskólabíói, í þann mund að festa kaup á tveimur miðum. Nema við gátum ómögulega munað hvað myndin hét svo Baldur sagði við miðasölustúlkuna: "Tvo miða á íslensku myndina sem var að byrja". Stelpan spyr til öryggis: "Duggholufólkið?" því þennan sama dag var verið að frumsýna þá íslensku mynd. Baldur hugsar sig lengi um en segir svo af miklum ákafa: "Neeeeiiiiiiii!" Svo lítum við ráðvillt á hvort annað, hvorugt með nafn myndarinnar á takteinunum og hugsum með okkur: hversu erfitt er að kaupa tvo bíómiða?

Svo við útskýrum: "Nei, sko myndin sem var að byrja fyrir fimm mínútum, hún heitir... eh... eitthvað með V-i. "Veðramót", spyr stúlkan. "Já, Veðraborg", endurtekur Baldur og ég spring úr hlátri. Að lokum tókst okkur að kaupa miðana og setjast inn í sal. Myndin var að sjálfsögðu ekki hafin en hófst þó skömmu síðar.

Eftir stefnumótið við Veðramót hélt stefnumót kærustuparsins áfram, við fengum okkur möggu á Devitos, heitt súkkulaði á Súfistanum og bækur til að fletta inn í hlýjunni. Við rúntuðum líka að Viðeyjarbryggju og virtum fyrir okkur friðarsúlu Yoko Ono, en eki síður fylgdumst við með strákum á smábílum spóla og skransa á svellilögðu bílastæðinu við höfnina.

Á heimleiðinni hlustuðum við á beina útsendingu frá Nasa á Rás 2, þar voru Ljótu hálfvitanir að spila, og sú útsending kallaði á heilmikið rúnt um vesturbæ Kópavogs með útvarpið í botni. Ekki spillti svo fyrir að fá beint í æð nýtt jólalag sem við fíluðum í ræmur, lagið Ég kemst í jólafíling. Við urðum síðan voða kát að heyra að umrætt lag við hvorki meira né minna en aðventulag Baggalútsmanna.

3 ummæli:

Móa sagði...

sæl Baldur og Ásdís, eru þið búin að sjá Darjeeling limited, hún er dásamleg og þar sem hún er á ykkar ferðaslóðum get ég ekki ímyndað mér annað en ykkur muni líka hún...bara svona talandi um bíó og svoleiðis. Móa frænka

ásdís maría sagði...

Frábært, takk fyrir þetta, það er alltaf gott að fá vísun á góða mynd. Við höfum verið á leiðinni á myndina í nokkurn tíma, en hver veit nema við látum verða af því í kvöld, svona í tilefni dagsins. Hlakka mjög til að rifja upp indverska takta :o)

Bestu kveðjur,
Ásdís

Tinnsi sagði...

Hae Baldur og Asdis, var ad skoda myndirnar ykkar fra Thailandi. Daleiddist af fogru folki og litum. Er ekkert markvert thess virdi ad skrifa um ad gerast a skerinu? Sakna bloggsins.