laugardagur, 22. ágúst 2009

Ísafjörður-Viðey á einum degi

Við lögðum upp í síðbúna útilegu vestur á firði fyrir nokkrum dögum og lentum í því allra versta sumarveðri sem um getur, eða 1°C hita, hagléli/slyddu/beljandi vatnsflaumi og æðandi og óðum vestfirskum kára. Ég er að gleyma aðalatriðinu: við vorum í tjaldi allan tímann.

Við vorum komin til að tína bláber. Alla þessa leið komum við til að endurupplifa fallega sumarfríið sem við áttum á Vestfjörðunum 2008, þegar við heimsóttum Flatey, Tálknafjörð og Bíldudal, Korpudal og Ísafjörð, náttúrulaugar, Dynjanda og Tjöruhúsið. Og tíndum bláber eins og við fengjum borgað fyrir það. Keyptum berjatínur í kaupfélaginu á Ísafirði og fötur í bílasjoppu sem auglýsti þær til sölu á tilkynnigartöflunni hjá Bónus. Og nú vorum við mætt með téðar tínur og téðar fötur. En komust svo hvorki lönd né strönd því ekki tínir maður ber í óveðri og stormi, lítil rómantík yfir því. Það varð þó til þess að við skoðuðum okkur þeim mun betur í miðbænum og duttum niður á berjagrindur sem notast má við til að flokka berin og tína frá sprek og annað rusl.

Eftir nokkra daga af því að sæta færis í berjatínslunni en verða að láta sér lynda að fara í sundlaugina á Suðureyri eða Flateyri í staðinn vorum við orðin vonlítil. Í ofanálag var uppi sú hugmynd að taka jafnvel þátt í Viðeyjarsundinu sem fram fór á föstudeginn 21. ágúst. Að morgni þess dags vöknuðum við eftir enn eina brjálaða nótt í tjaldinu, illa sofin og pirruð. Sáum þá að það var að stytta upp svo við rifum niður blautt og aurugt tjaldið og brunuðum inn í næsta fjörð til að fylla fötur af berjum. Það er skemmst frá því að segja að okkur tókst að tína 20 lítra á rúmum klukkutíma. Svo þustum við í bæinn, fórum öll shortcut sem við fundum og hringdum meira að segja í Upplýsingamiðstöð ferðamanna á Ísafirði til að fá staðfest að við kæmumst Þorskafjarðarheiði á bílnum okkar þrátt fyrir vatnsflauminn sem ætt hafði yfir landið á undangengnum dögum. Ég ætla ekki að hafa hátt um hvernig við fórum að því en á mettíma náðum við niður á Sundahöfn áður en hópsundið út í Viðey hófst, og meira að segja með viðkomu heima til að afferma bílinn og snara okkur í sundföt.

Sjálft Viðeyjarsundið var svo geggjuð upplifun. Að standa í 300 manna hópi og ætla sér að synda út í Viðey í köldum og úfnum sjó er meira en að segja það, í það minnsta kallaði það fram fiðrildi í maga í stórum stíl hjá mér. Það bætti ekki úr skák að hugsa til þess að samsundmenn mínir (Baldur, Stella, Kristján og Jói) voru öll á sínum tíma keppnisfólk í sundi. Fiðrildin voru hins vegar fljót að láta sig hverfa þegar ég var komin út í sjó (of kalt kannski fyrir svona viðkvæmar verur) og áður en ég vissi af var maður að verða kominn á leiðarenda. Ég var hins vegar ansi þrekuð eftir sundið og það voru margir. Baldur hafði gleymt að taka með sér föt til að fara í eftir sundið og því varð Kristján að deila því sem hann hafði komið með til að halda lífinu í Baldri. Við skulfum öll af kulda í bátnum á leiðinni til baka og brunuðum beinustu leið í Laugardalslaug þar sem við möruðum í hálfu kafi í heitu pottunum.

mánudagur, 3. ágúst 2009

Eyjafjörður

Um helgina fórum við á Akureyri í landsmótshugleiðingum. Við mættum á svæðið seint á föstudagskvöldi og vöknuðum snemma á laugardagsmorgni. Verkefni dagsins var að synda yfir Eyjaförðinn. Ásdís var klappliðið mitt og ég var þátttakandi á landsmóti ungmennafélaga :)

Siglt var með sjósundsfólk á ská yfir Eyjafjörðinn frá líkamsræktarstöðinni Átaki inn eftir. Þegar jullan var komin langleiðina yfir fjörðinn var sundfólk rekið frá borði og í land þaðan sem leikar hófust.

Blíðskaparveður var á svæðinu, sól og sjórinn á bilinu 10-12 gráður. Um miðjan fjörðinn var nokkur alda og straumur, sem gerðu sundið bara skemmtilegra, og fýllinn dýfði sér reglulega að manni í von um að fá að plokka eins og eitt auga eða tvö fyrir svanga unga. Hrekkjusvínið ég stóðst vitanlega ekki mátið að gusa svolítið yfir fiðurpúðana hvenær sem færi gafst.

Tilfinningin að synda á þessum slóðum er talsvert frábrugðin öðru sjósundi sem ég hef reynt og hef ég hoppað útí nokkuð víða. Sjórinn er svo útþynntur af stórum og vatnsmiklum ám að vart má greina saltbragð af honum. Vegna þessa er tilfinningin líkari því að vera í ölduglöðu ferskvatni en sjó.

Sundið sóttist vel og skiluðu allir sér í land með jafnmörg augu og lagt var af stað með. Eftir sund var svo legið í potti og gufu um hríð til að ná almennilegum hita í mannskapinn. Afrek af þessu tagi kalla á veisluhöld og fóru þau prúðmannlega fram á Bláu könnunni.

Að sundinu frátöldu vorum við ekki að neinu leyti í tygjum við landsmótið, dvöldum á tjaldstæðinu í Hrafnagili og heimsóttum frábæran bændamarkað þar á sunnudeginum. Á einhverjum tímapunkti röltum við upp í hlíðar meðfram Finnsstaðaá, pikknikkuðum og lögðum okkur í glampandi sól, mildum andvara, með félagsskap af flugnasuði og sauðfé.

Þessa helgi ókum við líka út á Tröllaskaga og skoðuðum bæði náttúru og krummaskuð, kíktum á Hjalteyri, stoppuðum til að fara í sund á Ólafsfirði og fengum okkur pizzu á Siglufirði. Á bakaleiðinni skoðuðum við Hofsós og Hóla í Hjaltadal, huggulegt. Á þriðjudeginum pökkuðum við saman og héldum suður eftir en fórum löngu leiðina, sem er Skagaströnd. Mæli eindregið með göngu að Glerhallavík, rétt hjá Grettislaug. Þá rigndi heil ósköp á okkur og sjórinn var eins og úrillur dreki með það að markmiði að ná í alla sem færu of nálægt, mögnuð upplifun og yndisleg snerting við hreinan náttúrukraft. Skyldustopp var í Kántríbæ áður en við lögðum í lokalegginn heim.