miðvikudagur, 4. apríl 2012
Blóm, prjón, kerti og kaffi
Lífið heima er svo fallegt. Það er snjór á sólpallinum og sólgeislarnir varpa sér af snjónum og af miklu afli í gegnum rúður og gluggatjöld inn á parketið hjá mér. Þar umbreytast þeir í hlýja birtu sem er ómissandi þáttur í hverju húshaldi. Þess konar birta sem leikur við allt sem gæti fangað auga ljósmyndarans.
Ég var læst úti í gær í rúma klukkustund og í stað þess að arka til baka í laxafabríkkuna til að ná í lykilinn af Baldri lagðist ég á auðan blett á snævi þöktum sólpallinum og fór í sólbað. Mér varð svo heitt að ég varð að fara úr úlpunni, flíspeysunni og síðerma ullarbolnum og lá að endingu á stuttermabolnum með handleggina bera. Þeir hafa ekki séð sól síðan í Indlandi!
Sambýlingarnir eru heima í Svíþjóð í páskafríi og við erum í foreldrafríi. Petra keypti lítið gult blóm til að skreyta fyrir páskana og nú er ég að hugsa um það, blessað blómið.
Ég er að prjóna sokk eftir sænskri uppskrift og ég er föst í hælnum. Ég stakk prjónunum í dokkuna og ég er svolítið hrædd um að þeir muni sitja þar eitthvað fram á vor. Verð að muna að senda mömmu uppskriftina til frekari þýðingar og útskýringa.
Ég drekk ekki kaffi en margir af mínu bestu vinum gera það. Þegar ég fæ leið á reykelsum finnst mér voða notalegt að fá kaffilykt í húsið, sem gerist oft því Baldur er svo góður vinur Lavazza og Segafredo. Svo er hvíta mokkakannan svo myndarleg.
Heyrðu, svo er ég komin í páskafrí sem er þar með laxafrí. Ljúúúúúft!
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
Mikið á ég gott að hafa þig :)
Spegill og silfurstjarna :)
Skrifa ummæli