Við létum veðrið ekki stoppa okkur á laugardaginn var en kannski hefðum við betur leyft því það. Það var svo fruktansvärt kalt!
Við fórum semsé niður í bæ eins og við höfðum ákveðið að gera, beint í kjölfar stormsins mikla, og þegar um er að ræða nýjar hefðir er frekar slappt að hætta við þegar á móti blæs (haha!).
Í þetta sinn kíktum við í nokkrar skemmtilegar verslanir eins og Brim og Rumputuska. Við kíktum líka í Borð fyrir tvo þar sem ég fann svo sætar litlar skálar (minna helst á iittala skálarnar fallegu) og hnusaði að fallegu kerti sem ilmaði svo vel. Brá í brún þegar ég sá að umrætt kerti lyktaði af cedarwood tobacco! Keypti það þrátt fyrir það, ég bara varð að gera það.
Við kíktum líka inn í nokkrar útivistarverslanir þar sem Baldur var að forvitnast um verð á Canadian Goose úlpum (Canadian Goose!). Ég held honum hafi verið orðið vel kalt í blæstrinum.
Það var svo fyndið að við vorum nánast einu Íslendingarnir á svæðinu því Laugavegurinn var pakkfullur af ferðamönnum sem komnir voru til að sækja Airwaves. Meira að segja nágrannarnir af efri hæðinni reyndust vera par frá D.C. að kíkja á tónleikana. Maður átti í fullu fangi með að viðurkenna það fyrir sjálfum sér og öðrum að maður hefði aldrei kíkt á þessa rómuðu hátíð. En annars héldu allir að við værum útlendingar líka og jafnvel þó við svöruðum á íslensku var starfsfólk ekki að gúddera okkur sem Íslendinga. Weird!
Á Ingólfstorgi rákum við augun í lítinn torfkofa sem komið hafði verið haganlega fyrir á miðju torginu. Inní þessu pínulitla húsi sat svo hljómsveit og stundaði sína spilamennsku af mikilli innlifun og meira að segja voru þarna áhangendur, búnir að troða sér inn í þröngt rýmið. Svo var myndavél sem varpaði herlegheitunum á stóran skjá sem hékk utan á gömlu Morgunblaðshöllinni. En við vorum á hlaupum undan kulda og vetri og gáfum okkur engan tíma til að hlusta á Pollapönk heldur hlupum beint inn um dyrnar á Icelandic Fish & Chips.
Þar fékk ég löngu í spelt- og bankabyggshjúpi, ofnbakaða og steinseljukryddaða kartöflubáta og chilli skyronnaise, á meðan Baldur fékk rauðsprettu, kartöflubáta og sinnepsskyronnaise. Hann splæsti líka í heimagerða engiferölið sem ég fékk að smakka og fannst mjög frískandi. Stúlkan sem afgreiddi okkur ætlaði aldrei að ná því að við værum Íslendingar og kom þrisvar til okkar og ávarpaði okkur á ensku. Og svo kom alltaf "æ já, alveg rétt!". Stórfurðulegt. Við vorum farin að halda að það væri eitthvað í tönnunum á okkur, eða augunum eða hárinu. Leituðum hátt og lágt en fundum ekkert útlenskt.
Við ætluðum varla að hafa okkur aftur út eftir huggulegheitin inn á Fiski & frönskum, en létum okkur að endingu hafa það og kíktum í Kolaportið. Baldur var búinn með alla broddmjólk, og hvaða heimili kallar sig heimili ef það er ekki til broddmjólk? Hann valdi vitaskuld appelsínugulustu flöskurnar úr frystinum.
Enduðum túrinn inn á Iðu, að skoða með augunum, þó mig hafi mest langað að kaupa með veskinu allar bækurnar og fína dótið sem þarna finnst. Dæs. Svo var strikið tekið heim þegar rökkva tók, en við urðum alveg að manna okkur upp í þann túr. Þá er gott að eiga vel kynt hús að koma heim í, eins og raunin var.
Ef þetta heldur svona áfram verð ég að grafa upp gamla skíðagallann minn því það er ekkert til sem heitir vont veður, bara ill klætt fólk! (eeee, reyndar var ógesslega hvasst líka, spurning um að redda sér lóðum á lappirnar)
Tada, hér eru nokkur skot frá þessum degi, nema hvað Karlsson klukkuna rákumst við á í Smáralind á fimmtudaginn var, en ég læt hana samt fljóta með því þetta er bara of fyndið. Tiger fær pönkaraprik fyrir hamstraklukkuna. Score!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli