Í tilefni þess fór ég í langan göngutúr, gekk frá Snorrabrautinni upp að Hallgrímskirkju og þaðan niður Mímisveg, inn Fjölnisveg og síðan inn á Laufásveg og þaðan niður í átt að Hljómskálagarði. Þar staldraði ég við til að virða fyrir mér útsýnið: spegilslétt Tjörnin, Fríkirkjan og yfir allt saman trónandi Esjan. Glæsileg sýn!
Ég gekk að HÍ og fór Alexanderstíg, í og með til að rifja upp gamla tíma en einnig til að upplifa nýja tíma og breytingarnar sem þeim hafa fylgt, þ.e.a.s. Háskólatorg. Svakaflott bygging, mann hálflangar aftur í háskólanám þegar maður sér hvað þetta er orðið flott.
Frá háskólasvæðinu rölti ég götuna sem ég rölti svo oft þegar við bjuggum á stúdentagörðum, þ.e. Aragötuna. Ég tók síðan stefnuna á sjóinn og gekk heillengi meðfram strandlengjunni, því nú var ég farin að snúa heim á leið og átti langa leið fyrir höndum.
Þar sem veðrið var svo milt gat ég sest á stein og hugleitt við öldugjálfur í hátt í klukkustund. Sólin vermdi andlitið og sjórinn og fjallagarðurinn sáu mér fyrir félagsskap.
Af öðrum fréttum þá áttum við skötuhjú sambandsafmæli í gær. 12 ár saman! Það er góð tala, og það sem betra er, hún stendur fyrir tólf yndislegum árum.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli