Við tókum okkur til um daginn og suðum heilan poka af kjúklingabaunum og útkoman var svo góð að ég vil deila aðferðinni með ykkur. Við leyfðum baununum að liggja í bleyti í allavega 24 tíma, en ég held það hafi jafnvel verið nær 30 tímum. Létum smá matarsóda út í vatnið. Skiptum um vatn allavega einu sinni á meðan á bleytingu stóð. Síðan skiptum við aftur um vatn, leyfðum suðunni að koma upp, skiptum þá aftur um vatn og leyfðum suðunni að koma aftur upp. Suðum þar til þær voru orðnar mjúkar milli fingra og leyfðum þeim síðan að liggja í vatninu á meðan það kólnaði aðeins áður en við helltum af þeim.
Úr þessari handavinnu urðu einar þær mýkstu og bestu kjúklingabaunir sem við höfum soðið. Miklu betri en þær sem maður kaupir tilbúnar í krukku, jafnvel þó þær séu lífrænar og fínar. Svo skipti ég þeim upp í 300g poka og frysti, einfalt mál. Svo í stuttu máli sagt: mæli eindregið með að gera þetta sjálf og vanda vel til verksins.
En hvað á maður svo að gera með allar þessar kjúklingabaunir? Mér finnst frábært á vetrarkvöldum að útbúa hummus sem síðan má hafa í kvöldnasl eða smyrja á samlokur.
Hér kemur uppskrift að algjörlega klassískum hummus í mínum huga, þ.e. með tahini, hvítlauk og ólífuolíu. Þessi uppskrift kemur frá Sollu Eiríks, uppúr bókinni hennar Grænn kostur Hagkaupa, en svo er hún einnig með uppskriftina aðgengilega á heimasíðu sinni
Himneskt.
HVAÐ
3 ½ dl soðnar kjúklingabaunir
2 msk vatn
2 msk tahini
2 msk sítrónusafi
1-2 hvítlauksrif, pressuð
½ - 1 tsk salt
¼ tsk cuminduft
cayenne pipar af hnífsoddi
1-2 msk góð ólífuolía
1 msk steinselja eða kóríander, smátt saxað
HVERNIG
Ef baunirnar koma beint úr frysti: leggja þær í djúpa skál, hella yfir þær sjóðandi vatni og leyfa að standa í 5 mínútur áður en vatninu er hellt af.
Allt hráefnið sett í matvinnsluvél og maukað saman þar til silkimjúkt og kekklaust. Geymist í 5-7 daga í kæli í loftþéttu íláti. Gott að borða með fersku, niðursneiddu grænmeti eða sem álegg ofan á brauð.