laugardagur, 16. mars 2013

Þrífóturinn prófaður í fyrsta sinn

Ég fór út að Gróttu í gær í þessu dýrindisbjartviðri. Það var vissulega bjart. En það er ekki þar með sagt að veðrið hafi verið gott. Látið myndirnar hér að neðan ekki blekkja ykkur: það var hífandi rok meðfram allri strandlengjunni og verst lét kári þegar ég var komin á Gróttu, og þar reyndi ég svo að hýrast í bítandi kuldanum til að sinna áhugamálum mínum.

Ástæðan fyrir því að ég fór út í þetta gluggaveður var sú að mig langaði að prófa nýja þrífótinn sem ég fékk í jólagjöf. Svo hafði mér líka áskotnast fjarstýring á myndavélina og nú fannst mér kominn tími á að prófa þessar nýju, fínu græjur. Svo mín vippaði myndavél og þrífæti ofan í körfuna á hjólinu og hélt niður á Gróttu. Á leiðinni varð ég reyndar að stöðva þó nokkrum sinnum til að mynda litina og landslagið.

Það var hins vegar við Gróttu sem ég tók þrífótinn fram, dró langa fætur hans alla leið út svo þeir næðu örugglega niður á jörð, stillti honum upp og horfði með ástaraugum á gripinn. Varð í næstu andrá að kasta mér á hann til að tryggja að hann fyki ekki um koll.

Ég var hátt í klukkutíma að gera tilraunir því ég lenti í smá basli með fjarstýringuna, náði ekki að fá hana til að virka. Stutt símtal í Baldurinn og hann fletti þessu upp fyrir mig. Sjálf var ég orðin svo krókloppin á höndum að ég hefði ekki getað mundað hönd og fingur á smáu lyklaborði símans til að finna þetta sjálf.

Prófanir á þrífót og fjarstýringu gengu vel. Nú er bara næst að fara út í minni vindi svo bæði ég og þrífóturinn fáum betur þrifist.

Horft yfir á fjallagarðinn
 
Esjan
 
Untitled
 
Untitled
 
Höfnin
 
Untitled
 
Untitled
 
Í slipp
 
Fjarstýringin
 
Fyrsta sjálfsmyndin af þrífætinum
 
Virkar þetta?
 
Untitled
 
Untitled
 
Þrífóturinn!

Engin ummæli: