Já, þetta er algjört ljúfmeti, svo það er eiginlega ekki hægt að hefja þessa færslu á öðru en hinu sígilda velþóknunarhljóði matgæðingsins: mmm.
Ég fékk að baka þessa í ofninum hennar mömmu svo það er ekki hægt að segja annað en að það hafi mikið verið á sig lagt til að hnoða þessari saman: hjóla með form og bakstursvöru frá Snorrabrautinni út á Granda og hjóla svo heim um miðnæturbil með form og bakstursvöru og gullfallega köku í farteskinu.
Gjörssovel, uppskriftin er hér að neðan. Upprunaleg uppskrift kemur frá heimasíðunni Ljúfmeti og lekkerheit og ég rakst á hana að mig minnir í Fréttablaðinu síðastliðið haust.
HVAÐ
175 g smjör
2 1/2 dl sykur
2 egg
3 dl sýrður rjómi eða súrmjólk
4 1/2 dl hveiti
2 tsk vanillusykur
1 msk lyftiduft
smá salt
Fylling: 1 dl sykur, 3 msk kanill
Yfir kökuna: 2 msk smjör
HVERNIG
Hitið ofninn í 175°C. Hrærið smjör og sykur mjúkt og ljóst. Bætið eggjunum saman við, einu í einu, og þar á eftir sýrða rjómanum. Bætið þurrefnunum við og hrærið vel saman. Blandið saman í sérskál sykri og kanil í fyllinguna.
Smyrjið formkökuform. Látið helminginn af deiginu í formið, stráið helmingnum af fyllingunni yfir, látið seinni helminginn af deiginu yfir og endið á að strá restinni af fyllingunni yfir kökuna. Leggið smjörklípur yfir kökuna og bakið í 45-60 mínútur (eftir stærð á formi).
Engin ummæli:
Skrifa ummæli