Þessir heilsubarrar eru tilvaldir í útivist og fjallgöngur. Samsettir úr höfrum, fræjum og þurrkuðum ávöxtum og gefa fína orku í gegnum daginn. Líka æði sem millismál. Eða sem kvöldsnarl. Miðnætursnarl, midt om natten snarl, early bird morgunmatur... Já, þeir eru sniðugir þessir barrar, þessir heislubarrar.
Fann þessa uppskrift á Pressunni.
HVAÐ
1 bolli hafrar
1/2 bolli kókosmjöl
1/2 bolli sólblómafræ
1/4 bolli hveitikím
1/4 bolli sesamfræ eða góð múslíblanda
1/4 bolli niðurskornar þurrkaðar apríkósur
1/4 bolli niðurskornar þurrkaðar döðlur
1/3 bolli hunang
1 1/2 msk hreint smjör (eða kókosolía)
1/2 tsk vanilludropar
salt
HVERNIG
Setja apríkósur, döðlur, hunang, smjör og vanilludropa í pott á vægan hita og bræða saman. Blandan er tilbúin þegar döðlur og apríkósur eru farnar að leysast upp og hunangið við það að fara að bubbla.
Blanda saman í sérskál þurrefnum: höfrum, kókosmjöli, hveitikími, fræjum og salti.
Setja nú hluta þurrblöndunnar út í þá blautu og hræra vel saman. Bæta við þangað til náðst hefur sá þéttleiki sem helst er óskað eftir á heimilinu í heilsubarramálum. Hjá mér varð rúmlega hálfur bolli eftir af þurrblöndunni. Betra að hafa blönduna í blautari kantinum svo barrarnir nái að loða vel saman þegar þeir eru tilbúnir í fjallgönguna.
Því næst er að dreifa úr blöndunni á smjörpappír eða í form. Mynda ferning eða ferhyrning, eftir því hvað innri rúmfræðingurinn segir til um. Leggið smjörpappír ofan á blönduna, takið stórt skurðarbretti og þrýstið vel niður á blönduna. Nota nákvæmnina, haf 'etta fallegt! Ef þið viljið þykka bita þá taka mið af því, ef þið viljið fleiri og þynnri eins og mínir urðu þá dreifa betur úr og leyfa innri flatarmálsfræðingi að dansa á smjörpappírnum.
Inní ísskáp í 2-4 tíma. Skera í æskilega bita. Njóta vel, helst einhversstaðar úti í íslensku náttúrunni (lesist: rokinu).
Hamingjuknús!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli