miðvikudagur, 9. október 2013

Gulróta & appelsínumöffins

Gulróta & appelsínumöffins

Þessa uppskrift gerði ég nú eiginlega fyrir tilviljun. Mig langaði að gera gulrótaköku, en síðan breyttist það í að gera möffins og að lokum endaði ég á að útbúa gulróta & appelsínumöffins.

Þessar múffur eru bragðgóðar og djúsí og appelsínubörkurinn og safinn lyfta þeim verulega. Þær eru hins vegar aðeins meira maus en hefðbundnari gulrótamöffins því maður aðskilur eggjahvítur frá eggjarauðum og stífþeytir hvíturnar, og ekki má gleyma að minnast á appelsínubörkinn sem maður raspar varlega niður. En ef maður getur gefið sér góðan tíma í baksturinn launar hann sig alltaf að lokum.

Þessi uppskrift er í tíu möffins,  svo það er um að gera að tvöfalda hana ef von er á mörgum gestum.

HVAÐ
Deigið:
2 egg, hvítur aðskildar frá rauðum
100 g smjör, við stofuhita
100 g púðursykur
1 (lífræn) appelsína, safinn + börkurinn
100 g hveiti
1 tsk lyftiduft
70 g valhnetur (+ auka fyrir skraut), saxaðar
1 tsk kanill
1/4 tsk þurrkað engifer
1/4 tsk múskat
160-170 g rifnar gulrætur

Kremið:
200 g rjómaostur, við herbergishita
60 g flórsykur
1 tsk vanilla
1/4 tsk salt

HVERNIG
1. Hitið ofninn upp í 180°C.
2. Raspið börkinn utan af allri appelsínunni og leggið til hliðar. Kreistið safann úr appelsínunni og setjið til hliðar.
3. Stífþeytið eggjahvíturnar í skál og setjið til hliðar.
4. Í stórri skál hrærið saman smjör og púðursykur þar til hræran verður létt og tekur á sig ljósari lit.
5. Bætið einni eggjarauðu út í blönduna í einu og hrærið vel saman við.
6. Bætið appelsínusafa og berki út í.
7. Hrærið hveiti og lyftidufti saman við.
8. Bætið hnetum, kryddi og gulrótum saman við.
9. Hrærið að lokum eggjahvítunum varlega saman við deigið með sleif.
10. Deilið deiginu út í möffinsform og fyllið tvo þriðju af hverju formi.
11. Inní ofn í 40-50 mín. Athugið að þegar múffurnar koma úr ofninum eru þær töluvert blautar í miðjunni en stífna við það að kólna.
12. Á meðan múffurnar bakast er ráð að útbúa rjómaostskremið. Hrærið öllu saman og geymið inní ísskáp.
13. Þegar múffurnar hafa fengið að kólna nægilega (45-90 mín) sprautið þá kreminu úr sprautupoka yfir hverja múffu fyrir sig. Skreytið með söxuðum valhnetum.

Gulróta & appelsínumöffins
 
Gulróta & appelsínumöffins

Engin ummæli: