mánudagur, 7. október 2013
Helgarpistillinn
Eplin hanga þung neðan úr trjánum þessa dagana. Við tókum hring um hverfið um helgina til að heilsa upp á eplatrén og sjá hvernig eplunum reiðir af í mildu haustinu. Eins og sjá má á myndinni að ofan eru eplin bústin og sæl og dafna vel í heiðríkjunni, rétt eins og við mannfólkið.
Í labbitúrnum gengum við framhjá einu eplatré sem stóð utarlegar á lóðinni, með eplum prýddar greinar slúttandi yfir girðinguna. Við litum laumulega í kringum okkur, hölluðum okkur svo yfir girðinguna og seildumst í eplið sem var okkur næst, bústnasta og stinnasta eplið á öllu trénu. Baldur stakk því inn á sig og síðan gengum við flautandi og lallandi með hendur í vösum frá trénu. Þegar við vorum komin í hvarf drógum við fram eplið og fengum okkur bita.
Hamingjan hjálpi mér! Þvílíkt epli!
Besta epli sem ég hef smakkað, hands down.
Í kvöldmatinn voru líka epli, jarðepli. Ég hafði útbúið franskt sumarsalat úr kartöflum og túnfiski og ofnbökuðum litlum tómötum sem var afskaplega gott.
Af öðrum afrekum helgarinnar má nefna að ég bakaði hjónabandssælu. Með jarðarberjasultu. Því svo virðist vera sem rabbarbarasulta sé ekki fáanlega í búðum í Noregi.
Oh well, hún var samt fantagóð.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli