föstudagur, 4. október 2013

Mexíkóskt lasanja

Mexíkóskt lasanja

Föstudagsuppskriftin þennan föstudaginn er algjört dúndur: Mexíkóskt lasanja!

Jömmjömmjömmjömm, jömmjömmjööööööm!

Þetta er að sjálfsögðu grænmetisútgáfa af þessum fína rétti, because that's just how I roll baby. Ég fann upp á því að útbúa svolítið sem ég kalla linsuhakk og er þessa dagana að setja út í allt: lasanja og lasagnette, spagetti bolognese, taco, mexíkóskar grýtur, ofan á pizzur...

Ég studdist við uppskrift Evu Layfeyjar þegar ég eldaði þetta fína lasanja, en - tada! - linsuhakksuppskriftin er úr minni smiðju.

Einn kosturinn við þessa uppskrift er að það má útbúa allt það helsta vel fram í tímann og geyma það í pottinum fram að þeim tíma sem maður þarf að stinga réttinum í ofninn. Þá á bara eftir að raða ofan í eldfasta mótið sem er alls ekki tímafrekt, og rétturinn verður bara betri við það að dúlla sér í pottinum í nokkra tíma. Svona uppskriftir elska ég!

HVAÐ
Linsuhakk:
300 g linsur, brúnar eða grænar (thekitchn er með upplýsingar um linsur)
1 lítill laukur eða hálfur venjulegur (svona 50 g), saxaður
2-3 hvítlauksgeirar, marðir
4 tsk þurrkuð papríka
2 tsk season all
1,5 bolli vatn
2 x Taco seasoning mix í pakka

Lasanja:
1 meðalstór rauðlaukur, smátt saxaður
1 rauð papríka, smátt söxuð
1 græn papríka, smátt söxuð
8-10 sveppir, niðurskornir (ég sker þá reyndar alltaf í fína teninga)
1/4 rautt chili, fræhreinsað og smátt saxað
1 dós niðursoðnir tómatar
350 g salsa (það má líka nota heimagerða sölsu)
1 dós maísbaunir
4 msk hreinn rjómaostur
2-3 msk kóríander, smátt saxað (ég nota oft þurrkað kóríander með góðum árangri)
Salt og pipar
6 litlar tortillur
Rifinn ostur
Nachosflögur, saltaðar

HVERNIG
Linsuhakkið:
1. Leggið linsur í bleyti í allt að 8 tíma. Ef þið hafið ekki svo mikinn tíma fyrir ykkur má alltaf leggja þær í bleyti í heitt vatn í 1-2 tíma.
2. Hellið af linsunum og skolið þær vel.
3. Steikið lauk og hvítlauk á pönnu í 5 mín.
4. Bætið við þurrkaðri papríku og season all, hrærið vel saman.
5. Bætið linsunum út í og hrærið vel við laukinn.
6. Hellið vatninu yfir. Hjá mér er það þannig að 1,5 bolli dugar vel til að það rétt fljóti yfir linsurnar, sem er einmitt það sem við viljum.
7. Leyfið suðunni að koma upp, lækkið svo í 3/6 og leyfið að malla í 20 mínútur undir loki.
8. Eftir 20 mínútur hrærið vel í hakkinu. Smakkið linsurnar til að athuga hvort þær séu ekki örugglega eldaðar (eiga að vera mjúkar undir tönn). Ef hakkið er þurrt þarf að bæta vatni útí fyrir næsta skref, en ef það er góður raki í hakkinu má bíða og sjá.
9. Bætið báðum pökkunum af Taco kryddinu og hrærið vel saman. Hér er bara að sjá hvort þurfi vatn eða ekki til að hjálpa kryddinu að ganga vel saman við hakkið. 1-2 dl gætu dugað.
10. Leyfið að standa á 2/6 í 10 mínútur.

Lasanjað:
1. Hitið ofninn upp í 180°C.
2. Á meðan hakkið eldast er hægt að byrja að lasanjasósunni. Í góðum potti steikið lauk, papríku, chili og sveppi í 5-10 mínútur.
3. Bætið útí tómötum, maísbaunum og sölsu og hrærið vel saman.
4. Bætið útí rjómaostinum og blandið honum vel saman við.
5. Bætið við kóríanderinu.
6. Bætið nú við öllu linsuhakkinu og hrærið vel saman.
7. Smakkið réttinn og saltið, piprið og bragðbætið að eigin smekk.
8. Nú hefst gamanið! Takið fram eldfast mót og raðið í lög: tortillur, linsuhakk, rifinn ostur.
9. Mér finnst gaman að skreyta með nokkrum flögum af þurrkuðu kóríander  yfir ostinn. Svo má stinga tortilla flögum niður með forminu til að lyfta réttinum upp.
10. Inní ofn í 25-30 mínútur.

Við borðum þetta fína lasanja alltaf með ferskum avókadó, sýrðum rjóma, góðri sölsu og nachos.

Mexíkóskt lasanja
 
Mexíkóskt lasanja

Engin ummæli: