Mig langar aðeins að segja ykkur frá því hvernig við gerðum þetta ef einhver annar skyldi vilja gera slíkt hið sama. Við tókum fyrir búrskápa og frysti. Tókum eina skúffu/hillu fyrir í einu. Tæmdum hana, þrifum og endurröðuðum (sjá mynd #1). Áður en matvælin fóru aftur á sinn stað skrifuðum við hjá okkur magn og síðasta neysludag, t.d. 2,5 kg hvítar baunir (24.12.15). Svona héldum við áfram þangað til allir búrskápar höfðu verið tæmdir og fylltir aftur, og öll matvæli skráð (sjá mynd #2).
(Fyrir matvælin okkar var þetta svolítið Biblíukennt, í ætt við "skrásetja skyldi alla heimsbyggðina". Engin var þó Ágústus keisari.)
Þegar við höfðum skráð niður allt sem hægt var að skrá fór ég yfir á næsta skref sem var að renna skærbleikum yfirstrikunarpenna yfir matvæli sem ýmist voru þegar útrunnin eða með síðasta neysludag einhvern tímann á fyrri part þessa árs (01.01.14-30.06.14). Útrunnar vörur fengu tvö til fjögur upphrópunarmerki skeytt aftan við sig, allt eftir alvarleika málsins (!!!). Síðan tók ég annan lit (skærgrænan) og strikaði yfir matvæli sem höfðu síðasta neysludag á síðari helming þessa árs (01.07.14.-31.12.14) (sjá mynd #3).
Eftir þessum yfirstrikunum vann ég síðan heildarlista sem hafði að geyma yfirlit yfir þau matvæli sem eru næst því að renna út og sem liggur mest á að koma í matreiðslu (sjá mynd #4). Skipti listanum í tvennt, fyrri part og seinni part árs, klippti út og límdi á ísskápinn (sjá mynd #6). Héðan í frá getum við síðan skipulagt máltíðir og eldað eftir þessum listum til að tryggja að maturinn okkar renni ekki út.
Lokastigið var einmitt það: að rita niður hugmyndir að máltíðum sem hægt er að elda úr matvælunum á fyrri listanum (sjá mynd #5). Þannig lítur út fyrir að við nærumst á bygggrauti, hummus, chia grauti, kínóasalati og adukibaunabuffum á næstu mánuðum. Við þreyjum í það minnsta þorrann.
Hér eru framkvæmdastigin í einföldum skrefum:
- Telja birgðir: Skrá niður magn matvæla og síðasta neysludag.
- Merkja við: Merkja sérstaklega við þau matvæli sem renna út 2014, gott að nota tvo liti fyrir fyrri og seinni helming ársins.
- Skrifa lista: Skrifa upp lista af matvælum sem renna út fyrri part árs (listi 1) og annan fyrir þau sem renna út seinni part árs (listi 2).
- Brainstorma máltíðir: Hugsa upp allt sem hægt er að elda úr þeim matvælum sem eru á fyrri lista (þeim sem eru næst því að renna út). Lista hugmyndir á blað (listi 3).
- Hengja upp: Setja alla þrjá listana upp þar sem auðvelt er að sjá þá, t.d. á ísskápinn.
Efst á listanum hjá okkur eru adukibaunir og kínóa. Best að fara að finna & pinna uppskriftir!
MYND #1
Engin ummæli:
Skrifa ummæli