Við hófum árið í Garðabænum en kvöddum það í Skien. Við héldum upp á síðasta dag ársins með því að endurtaka leikinn frá jóladag og elda kalkún og með því. Fengum meira að segja daimístertu í eftirrétt. Hér er öllu til tjaldað.
Við erum búin að horfa á góða þætti núna milli jóla og nýárs, eins og þættina Death Comes to Pemberley og uppáhaldið okkar Downton Abbey. Við treinuðum okkur þá og gáfum okkur þá í jólafrísgjöf. Þvílík gjöf!
Eftir mat horfðum við einmitt á Downton Abbey og urðum að gera hlé á sýningunni til að fagna áramótum. Klæddum okkur upp, pökkuðum niður tveimur tylftum af vínberjum og röltum út að góðum útsýnisstað hérna í grenndinni.
Þaðan sáum við yfir allan bæinn og gátum horf á flugeldasýningu heimamanna. Við bjuggumst nú ekki við miklu en þeir komu okkur á óvart Norðmennirnir.
12 sekúndur í miðnætti röðuðum við í okkur 12 vínberjum og fylltum á okkur munnana. Kysstumst svo og heilsuðum nýju ári. Ég horfði út í svart náttmyrkrið og reyndi að sjá gamla árið snúa frá og ganga í burtu. Ég verð alltaf óvenjutilfinningasöm þegar ég hugsa til gamla ársins sem er að kveðja og hef verið svona síðan ég man eftir mér. Man eftir mér sjö ára á Ármannsvellinum, rýnandi út í náttmyrkrið, ég vorkennandi gamla árinu svo óskaplega.
En það er komið nýtt ár og það verður hjá okkur næstu tólf mánuðina. Spinnum úr stundum okkar gott og eftirminnilegt ár.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli