Á ferðalögum um Indland og Suðaustur Asíu hef ég ánetjast steiktum grjónum. Maður borðar á veitingastöðum á hverjum degi og í Indlandi t.d. er alltaf það sama á boðstólum á öllum veitingastöðum: indverskt, ítalskt eða kínverskt. Svo ég róteraði á milli nokkurra rétta og steikt grjón urðu yfirleitt fyrir valinu þegar ég var komin með nóg af masala og langaði í eitthvað svolítið salt en ókryddað.
Ég hef oft reynt að herma eftir þessum steiktu grjónum sem maður fékk á hinum ýmsu veitingastöðum á ferðalögunum, með misjöfnum árangri þó. Um daginn átti ég soðin grjón inn í ísskáp, og í staðinn fyrir að búa til grjónagraut eins og ég geri nánast undantekningalaust við grjón sem ég á inní ísskáp, þá ákvað ég að steikja grjónin.
Ég fylgdi leiðbeiningum sem ég fann á netinu um hvernig best er að bera sig að, en að öðru leyti notaði ég það sem ég átti í ísskápnum. Þetta kom alveg ljómandi vel út.
Þetta er sniðugur réttur ef maður á soðin grjón, að ég tali nú ekki um ferskt grænmeti. Gulrætur eru klassískar í þetta kombó. Sesamolían er ómissandi. Ekki halda að einhver önnur olía dugi til, bara sesamolían færir rétta bragðið í réttinn.
HVAÐ
2 msk sesamolía
1 rauðlaukur, fínt saxaður
2 gulrætur, í þunnum sneiðum
1 sellerístilkur, í þunnum sneiðum
Nokkur brokkolíblóm, smátt skorin
3 hvítlauksgeirar, marðir
3 egg, hrærð
2 msk tamari/sojasósa
2 bollar soðin grjón (helst dagsgömul)
HVERNIG
1. Hitið olíuna á pönnu.
2. Hendið út á lauk, gulrótum, sellerí og brokkolí. Leyfið að mýkjast aðeins í olíunni. Hafið heitt undir pönnunni (t.d. 5/6)
3. Bætið hvítlauknum útí og hrærið vel saman við.
4. Ýtið grænmetinu til hliðar á pönnunni og hellið eggjunum út á. Hrærið stöðugt í.
5. Þegar eggin eru því sem næst elduð í gegn, blandið þeim saman við grænmetið.
6. Bætið útí tamari/sojasósunni og hrærið saman við.
7. Hendið soðnu grjónunum út á, blandið vel saman við og hafið á hellunni þar til grjónin hafa hitnað í gegn (tekur bara örfáar mínútur).
Berið fram strax, gjarnar með ferskmeti eins og niðurskorinni papríku og gúrku og auka dash af tamari.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli