Síðustu ár ævi sinnar bjó Leonardo da Vinci í Château du Clos Lucé, frá 1516 og til dauðadags (1519). Hann bjó þar í boði Francis I. sem vildi þau laun ein í skiptum að fá að hlusta
á samræður hans við aðra merka menn.
Í gær heimsóttum við þennan síðasta bústað Leonardo. Gengum einnig um garðinn hans þar sem hann hafði plantað rótargrænmeti og jurtum. Vissuð þið að hann var grænmetisæta? Það er sérstaklega minnst á það þegar maður gengur í gegnum eldhúsið.
Í kjallara hússins er yfirlit yfir helstu uppfinningar hans og í garðinum hefur mörgum uppfinninganna verið komið fyrir svo gestir geti spreytt sig á þeim. Virkilega skemmtilega útfært, og fallegur garðurinn.
Hugsa sér, nú hef ég gengið í fótspor Leonardo da Vincis!
Við fengum okkur hádegismat í elsta bakarí bæjarins Amboise. Quiche með salati. Og Orangina. Maður er nú einu sinni í Frakklandi.
Á rúntinum um dalinn eftir hádegismat enduðum við í lítilli gróttu þar sem vínbóndi selur vínin sín. Á þessum slóðum hafa fjölmargir hellar verið grafnir inn í sandsteininn og þar eru vínflöskurnar geymdar, fjarri hitasveiflum.
Pabbi og Hulda fengu fyrirlestur um vínin sem voru í boði, hvernig uppskeran hafði verið, hvernig vínið smakkaðist með tilliti til árferðis og ég veit ekki hvað.
Guði sé lof að þau keyptu tvær flöskur af manninum.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli