föstudagur, 14. desember 2001

Baby marxist og mannát

Frábært, núna eru bara tvö próf eftir. Ég tók þetta blessaða próf í kenningum II í gær og mikið var þetta leiðinlegt próf. Maður komst ekki í neitt skriftarstuð af því að manni leiddust svo ritgerðaefnin. Eitt er þó gott við að taka próf hjá Svenna, hann er alltaf með eina undirbúna spurningu sem við erum búin að undirbúa heima og síðan er bara að leggja allt á minnið fyrir prófið. Að þessu sinni var spurningin svo hljóðandi:

Hversu mikið vægi hefur frjáls vilji mannsins gagnvart ytri áhrifaþáttum (líffræðilegum, vistfræðilegum, strúktúralískum) í athöfnum hans eða hennar?

Það fyndna er að við í leshópnum erum búnar að kvarta í allan vetur undan þessum frönsku heimspekingum sem við þurftum að lesa, spyrjandi okkur hvers vegna við í mannfræðinni þyrftum að leggja okkur þetta til augna, en síðan endaði þetta með því að ritgerðin samanstóð eiginlega bara af því sem Merleau-Ponty, Bourdieu og Foucault sögðu um frjálsan vilja og atbeina. Það skemmtilega við svona kenningar er að maður getur túlkað þær á sinn hátt og fær því ekki rétt eða rangt nema kennari sjái enga glóru í túlkuninni og finnist rökin léleg.

Skemmtilegast í ritgerðinni fannst mér þó að skrifa um kenningar félagsvísindamanna sem trúa á líffræðina og félagsvistfræðinganna. Líffræðin talar um að svokallað sjálfselskt gen stjórni öllum okkar athöfnum og þannig má eiginlega segja að við séum fangar í eigin líkama með engan atbeina.

Síðan eru það "brandarakallar" mannfræðinnar eins og t.d. Harris en hann er harðlínu efnishyggjumaður og telur sig líka vera marxista. Þakkir þær sem hann fær frá mannfræðinni er að vera kallaður "baby marxixt" og "vulgar materialist".

Það er kannski ástæða fyrir því, mannfræðingar eru t.d. ekkert allt of hrifnir af því hvernig hann útskýrir mannát. Hann vill nefnilega meina að menn stjórnist algjörlega af því umhverfi sem þeir lifa í og ef þeir fá ekki einhver næringarefni eða steinefni vill hann meina að það komi fram í hegðun manna. Þannig segir hann mannát vera tilkomið vegna prótein- og saltskorts manna og þess vegna brenni menn lík manna þegar þeir gefa upp öndina og éti síðan öskuna, þannig eru þeir að fá þau næringarefni sem þá skortir!

Núna er ég aftur á móti lögst yfir mannfræði barna og það er svo sannarlega skemmtilegt. Þetta er þó oft á tíðum erfið lesning, í gær var ég t.a.m. að lesa um dulsmál á Íslandi frá 1500-1900 og hvernig foreldrar förguðu börnum sínum. Síðan kom skemmtileg grein um nafngiftir á Íslandi og hvernig þeim væri háttað, það var mergjað.

Vissuð þið að t.d. að kona ein í Færeyjum var ólétt þegar átta manna áhöfn fórst einhvern tíma fyrr á öldum. Áhöfni birtist henni síðar í draumi þar sem mennirnir komu til að vitja nafns. Konan fæddi síðan stúlkubarn og var hún nefnd eftir þessum átta sjómönnum, nefnilega Ada Magnina Petra Thomasina Kristina Thomina Daniella Elisabeth.

p.s. það er komin nýr linkur hér til hægri, baggalútur kallast sú síða. Mæli eindregið með henni.

Engin ummæli: