laugardagur, 15. desember 2001

Huggulega hælisgrænt

Jæja, þetta er allt í áttina, eitt stykki jólapróf eftir, mikið hlakka ég til þegar þessari törn líkur. Ég kláraði prófið í Mannfræði barna í dag, það var ferlega skemmtilegt að lesa undir það próf en einnig gaman að taka það. Verst hvað tíminn er alltaf stuttur, maður hefur svo miklu meira að segja.

Þrátt fyrir miklar annir í prófinu, samfelld þriggja tíma skrif, gat ég ekki annað en veitt því athygli hve allt var einstaklega grænt inn í þessari stofu, borðplöturnar voru grænar, sumir stólar voru grænir, prófarkirnar voru grænar og jafnvel rissblöðin voru græn! Ég þarf vart að taka fram að allt var þetta svona huggulega hælisgrænt.

Í prófinu skrifaði ég m.a. um barnadauða á Íslandi fyrr á öldum og kenningar sagnfræðinga um tilurð hugtaksins barndómur. Einn franskur sagnfræðingur, Ariès, vildi meina að slíkt hugtak hefði ekki verið til fyrir miðaldir og að börn hafi bara verið litlir fullorðnir. Sú kenning hafði gríðarleg áhrif á hugsunarhátt manna og velti kenningum þroskasálfræðinnar hans Piaget úr sessi að mörgu leyti.

Í ritgerðinni um barnadauðann kom ég inn á ástæður hans en þær voru m.a. fátækt, skortur á hreinlæti og sú staðreynd að íslenskar mæður gáfur börnum sínum ekki brjóst á tímabilinu 1500-1800. Ég man þegar Jónína var að segja frá þessu í bekknum, það göptu allir af undrun. Börn fengu dúsu sem samanstóð m.a. af tuggnum fiski og kjöti sem sett var í klút og þessu síðan stungið upp í börnin. Af þessum sökum fengu börnin m.a. niðurgang, þornuðu upp og dóu.

Ég man líka eftir öðru sem kom okkur á óvart. Það var í tímanum þegar við vorum að tala um brjóstagjöf og hvernig henni væri háttað í hinum ýmsu samfélögum og meðal hinna ýmsu þjóðarbrota, þá sagði Jónína okkur að karlmenn gætu líka gefið brjóst! Ja, þá duttu mér allar dauðar lýs af höfði. Við gátum varla trúað þessu en Jónína sagðist vita til um tvö tilfelli þess frá sinni vettvangsrannsókn í Afríku að faðirinn hefði gefið barni sínu brjóst.

Við vorum greinilega skeptísk á þetta því í næsta tíma kom læknir og hélt fyrirlestur og þá spurðum við hann í þaula út í þetta. Hann sagði þetta allt vera satt og vitnaði m.a. í Íslendingasögurnar, ég man ekki hverja, þar sem faðir átti að hafa gert nákvæmlega þetta.

Engin ummæli: