miðvikudagur, 8. maí 2002

Af kartöflum og öðrum kynjaverum

Seinustu helgi settumst við tvö niður við eldhúsborðið góða og skeggræddum mataræði okkar. Við sáum fram á að brýnt væri að auka fjölbreytnina í eldamennskunni og bæta við salati á hverjum degi til að fá daglegan skammt af steinefnum og vítamínum.

Undanfarið höfum við verið ósköp hugmyndasnauð hvað viðkemur matreiðslunni, við höfum komið heim úr vinnunni kúguppgefin og þá þurft að fara að velta fyrir okkur hvað skuli elda. Þetta er eflaust vandamál sem flestir þekkja. Okkar svar við þessu hefur yfirleitt verið að sjóða hrísgrjón og útbúa egg í brauð.

Slíkt fæði dugir þó ekki í öll mál og þegar hér var komið sögu fannst okkur nauðsynlegt að hætta að kvabba og kveina og segjast ekki kunna að elda og líta frekar í okkur kæru matreiðslubækur. Við eigum nefnilega margar flottar slíkar, eina með hrísgrjónaréttum, eina með pasta, eina með stir-fry uppskriftum og síðast en ekki síst þá eigum við þessa líka flottu grænmetisalfræðimatreiðslubók þar sem er að finna yfirlit yfir helsta grænmeti og ávexti sem hér á jörðu þrífast. Þar að auki er hún stútfull af ýmsum uppskriftum.

Sum sé, þetta tiltekna kvöld settumst við niður við eldhúsborðið góða og flettum í gegnum þessar blessuðu bækur. Merktum með gulum Post-it við þær sem okkur leist á. Hófust síðan handa við skipulagningu, elda þetta á mánudag, þetta hér á þriðjudag og síðan þetta, namm, á miðvikudag.

Á mánudag eldaði Baldur svaka fína sveppasúpu og ég gerði heiðarlega tilraun til að gera frambærilega blómkálsböku. Súpan var ljúffeng en það sama get ég ekki sagt um bökuna. Það þarf ekki að taka fram að Baldri fannst þetta allt lostæti.

Í gær var komið að tilraun tvö: Kartöflubollur. Eftir tveggja tíma eldamennsku með tilheyrandi subbuskap og óhreinum ílátum var maturinn kominn á borðið og vitið þið hvað? Mér fannst þetta ógeðslegt! En auðvitað var Baldur hæstánægður með matinn og kláraði allar bollurnar si svona! Er eitthvað hér í heimi sem Baldri finnst ekki gott að borða, mér er bara spurn?

Eftir allskyns hrakfarir í eldamennskunni undanfarna daga held ég að ég gefist upp í bili og eldi bara a la Digranesvegur í kvöld: Egg í brauði með hrísgrjónum og chilli sósu.