miðvikudagur, 3. september 2003

Dansi, dansi!

Þetta var nú meira fjörið! Ég mæli með þessu við alla. Við lærðum grunnspor og takta í foxtrot, djæf og vals. Tróðum lítillega á tám hvors annars, þurftum stundum að byrja aftur en gekk alveg ótrúlega vel þess á milli.

Það góða við svona dans er að maður hugsar ekki um neitt annað á meðan. Maður bara dansar og dansar og reynir að ná sporunum. Að vísu var ég svo einbeittur fyrst að ég kramdi höndina á Ásdísi og tók líka allt of stór skref, en svo lagaðist þetta.

Fram, fram, stutt, stutt! Aftur, aftur, stutt, stutt! Rokk, rokk, stutt, stutt! Þarna er smá sýnishorn af foxtrot en ef maður kann hann getur maður víst þóst kunna fullt af öðrum dönsum með eilitlum stílbrögðum. Það kemur áreiðanlega síðar.

Djæf er svolítið erfiðara að útskýra í svona bloggi enda voru þar ýmsir snúningar og hnykkir, Ásdís tók meira að segja svona bíómyndasnúninga fram og aftur. Í lokin til að róa okkur var tekinn kassavals sem er ósköp þægilegur. Að loknum danstíma var svo rúllað beint heim enda verður maður lúmskt lúinn af þessu tjútti.