þriðjudagur, 23. september 2003

Pamfílar -framhaldið

Hver man ekki eftir hinum dularfulla lista sem nefndur hefur verið hér á heimasíðunni oftar en í tvígang. Við vorum á þessum lista til að fá íbúð á Stúdentagörðum. Hann heyrir nú sögunni til. Ástæðan fyrir því er góð og gild. Í gær var hringt í Ásdísi frá Stúdentagörðum og henni tilkynnt að íbúð hefði losnað sem hentaði okkur.

Við skunduðum til að skoða íbúðina um ellefuleytið, leist vel á og skráðum okkur hana. Við áttum alls ekki von á að þetta myndi ske fyrr en um áramót þar sem við vorum enn í tíunda sæti. Svona er það nú bara hjá pamfílunum.

Við fórum því í 10-11 og fengum fullt af kössum og erum byrjuð að pakka smá. Það eru nú samt blendnar tilfinningar sem fylgja þessu öllu saman því ekki eru nágrannar eins og Eygló og Maggi á hverju strái. Maður vonar bara það besta og smælar framan í heiminn. Því eins og meistari Megas sagði réttilega: Ef þú smælar framan í heiminn þá smælar heimurinn framan í þig.