þriðjudagur, 6. janúar 2004

Þrettándinn

Í dag heldur seinasti jólasveinninn aftur til fjalla og eru þá jólin bara búin. Þar sem ég á ansi erfitt með að sætta mig við það ætla ég að halda jólaskrautinu uppi í pínuponsu stund lengur, allavega ljósunum.

Talandi um ljós þá fórum við í kvöld á þrettándagleði í Grafavoginum þar sem við tókum þátt í blysför og fylgdumst með því þegar kveikt var í brennunni. Rétt eins og í fyrra var mikið um fólk - þó helst smáfólk - og kemur það svo sem ekki á óvart þar sem það er góð stemmning að standa við stóran bálköst, hlusta á börnin syngja jólalög og fylgjast með grýlu og leppalúða, álfakónginum og álfadrottningunni.

Það sem dró okkur þó helst að brennunni var flugeldasýningunni en hún var ansi tilkomumikil í fyrra. Í þetta skiptið fékk ég þó meira af flugeldum en ég kærði mig um. Einhverjir stóðu rétt fyrir utan hópinn og voru að senda sína eigin flugelda upp.

Mér fannst viðeigandi að líta svo á að þeir hinir sömu væru að hita upp fyrir alvöru flugeldasýninguna en stóð þó ekki á sama þegar það varð nær að alvöru. Það kom nefnilega einn flugeldinn fljúgandi inn í mannmergðina og sprakk með miklum hvelli rétt við hlið okkar. Mér brá svo rosalega að ég held ég hljóti að hafa skrækt eitthvað.

Þrátt fyrir að ekki hafi kviknað í neinum ákváðum við að færa okkur að barnaendanum sem var mun rólegri og hættulausari staður (að undanskildum öllum börnunum með kyndla sem þau veifuðu í kringum sig að sjálfsögðu). Þar stóðum við og sötruðum heitt kakó og gæddum okkur á kanelsnúðum - smá góðgæti - og þegar það var búið byrjaði flugeldasýningin - smá augnakonfekt.