þriðjudagur, 1. júní 2004

Sumarið er tíminn

Þá er fyrsti vinnudagurinn liðinn og gekk hann vel að vanda enda er ég þaulvön þessari akademísku skrifstofu-altmúligtvinnu. Fyrsti dagurinn fór að megninu til í skipulagsvinnu og tiltekt enda fátt betra til að koma sér í gírinn en að hafa allt í röð og reglu. Ég lagði líka örfín drög að námsskipulagi fyrir sumarið þar sem ég ætla að nýta það í að koma meistaraverkefninu á skrið. Það vill svo heppilega til að vinnan mín tengist náminu svo að í því tilviki má segja að ég hæfi tvær flugur í einu höggi :)

Seinni part dags horfðum við Baldur á kvikmyndina 101 Reykjavík og lengi á eftir komst ekki annað að hjá okkur en lagstúfurinn Lola, lalalala Lola, lalalala Lola... Frábær mynd í alla staði sem ég mæli með. Victoria Abril er algjör töffari.

Um kvöldið kíktum við síðan í þriðjudagssoðninguna hjá Pétri afa. Maturinn bragðaðist vel sem endranær og selskapurinn var góður. Þessi fyrsti dagur júnímánaðar (sem mér finnst vera hinn eiginlegi fyrsti sumardagur) var því afbragðsgóður og ef hann gefur tóninn af því sem koma skal segir ég bara: bring it on!

Engin ummæli: