Ég hef verið þeirrar gæfu aðnjótandi að hafa góða heilsu. Mér verður sjaldan misdægurt og hef lent í fáum óhöppum. Í vikunni tókst mér þó á undraverðan hátt að slasa mig í svefni. Já, í svefni!
Ég var að beygja hálsinn aftur þegar ég vakna við sársaukabylgju sem fór um hálsinn og alla vinstri öxl. Í fyrstu gat ég hvorki hreyft legg né lið af sársauka og þó gat ég ekki legið eins og ég var því það var of sárt. Eftir að hafa yfirfarið líkamann og komist að því að ég gat enn hreyft tær og fingur vakti ég Baldur og sagði honum tíðindin: Ég er slösuð. Hann skipaði mér að liggja fyrir með hitateppi og hitakrem - mér varð frekar heitt.
Í fyrstu gat ég ekki hreyft höfuðið og ég komst ekki fram úr rúminu af sjálfsdáðum. Mér batnaði þó hratt og gat stigið fram úr rúminu seinna um daginn. Göngulagið var hins vegar mjög skrítið, ég minnti helst á hringjarann frá Notre Dame. Það vakti mikla kátínu og hlátur hjá sambýlismanninum en ég varð að binda enda á öll hlátrasköll því þau sendu hverja sársaukabylgjuna á fætur annarri niður hálsinn og öxlina.
Daginn eftir var ég síðan orðin ansi góð og í gærkvöldi gat ég loksins gert jóga, ég komst meira að segja í axlastöðuna og hálsinn er í góðu lagi.
Í dag er ég aftur komin í hlutverk Quasimodos en í þetta sinn var ég undir það búin. Eftir átök á æfingu gærdagsins bjóst ég fastlega við harðsperrum og þær létu ekki á sér standa. Ég komst varla fram úr rúminu í morgun, skjögraði inn í eldhús tinandi eins og gamalmenni en skjögraði síðan aftur upp í rúm.
Ég get varla staðið upprétt, get ómögulega gert jóga og síst af öllu axlarstöðuna. Og samt er ég glöð og kát því ég er heilsuhraust, Guði sé lof fyrir það.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli