fimmtudagur, 19. janúar 2006

Lögst í hýði

Undanfarna tvo daga má segja að ég hafi legið í hýði. Það er búið að vera frekar kalt utandyra en hlýtt innandyra og auk þess eru búrskápar fullir af mat svo ég hef ekki haft erindi út fyrir hússins dyr.

Við kíktum reyndar í ræktina í dag þrátt fyrir kuldann og þar lenti ég í því að hætta mér varla undir bununa því hún var svo afskaplega heit og hvergi hægt að stilla hitann. Ég var farin að sjá fram á að þurfa halda heim á leið með hárnæringuna enn í hárinu - það kom þó ekki til þess.

Á leiðinni heim úr ræktinni var byrjað að fenna lítillega og nú er allt undir nokkurra sentímetra snjólagi. Snjórinn dempar umferðarhljóðin og milljónfaldar birtumagnið en ég ætla samt að halda mig innandyra, taka þátt í Desperate Housewives maraþoni og helst frysta myndina þegar Mike Delfino bregður fyrir á skjánum.

Já, mikið væri gott að leggjast í vetrardvala eins og múmínálfarnir sem fylla magann af barrnálum og leggjast svo til svefns. Ég gæti alveg hugsað mér það, það er bara verst hvað mér finnast barrnálar beiskar á bragðið.

Engin ummæli: