laugardagur, 7. janúar 2006

Sérvitur bókaormur

Ég viðurkenni það hér með og horfist í augu við sannleikann: ég er sérdeilis skrýtinn lesandi.

Frá því ég fór að lesa eitthvað af viti, þ.e. á unglingsárunum, hefur ákveðin tilhneiging fylgt mér. Þessi tilhneiging lýsir sér í því að ef einhver í sögunni er að gæða sér á einhverju (sem ég veit af fenginni reynslu að er ætt) þá langar mig í slíkt hið sama - núna.

Þetta gerist svo oft að þegar ég segi Baldri að mig langi í þetta eða hitt matarkyns spyr hann mig að bragði hvort einhver í bókinni sé að fá sér svoleiðis.

Nokkur dæmi máli mínu (og sérvisku) til stuðnings:

Þegar ég horfði á teiknimyndirnar um Heidi í Ölpunum, sem voru að mig minnir á fimmtudögum á RÚV, gladdist ég alltaf mjög þegar í matinn var hrísgrjónagrautur það sama kvöld, það líktist nefnilega svo þessum graut sem Heidi og félagar fengu frá afanum í litla fjallakofanum.

Þegar ég las bækur Jane M. Auel um Aylu var ég alltaf að biðja mömmu að útbúa einhvers konar pottrétt/gúllas því það var sá réttur sem mér fannst helst líkjast þeirri matargerð sem lýst er í bókunum.

Þegar ég las Minningar geisju hans Arthur Goldens var ég alltaf með skál af soðnum, hvítum hrísgrjónum og sojasósu mér við hlið.

Og nýjasta dæmið er frá því í gær. Ég var þá nýlega byrjuð á Angela's Ashes hans Frank McCourt þar sem lýst er mikilli fátækt og sult á Írlandi þriðja og fjórða áratugar 19. aldar. Nema hvað, eitthvað hlaut Frank McCourt að borða til að lifa það að verða rithöfundur: soðnar og stappaðar kartöflur með smjöri og salti. Ég beint inn í eldhús, kartöflur bubbla í potti og áður en ég veit af er ég farin að gæða mér á stöppunni.

Ég kýs að líta svo á að ég lifi mig inn í söguna, Baldri finnst ég bara skrýtin.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þú ættir að prófa að lesa SULT eftir Knut Hamsun, það gerði ég og borðaði ekkert í 3 mánuði á eftir.
Allt gert tið að ná stemmingunni.
islendingen

ásdís maría sagði...

Mér varð einmitt hugsað til þessa verks þegar ég var að skrifa færsluna og velta mér upp úr sérvisku minni. Ég hafði nefnilega fengið að heyra það frá mér eldri manni að sá lestur hafði skilið hann eftir sárhungraðan, já jafnvel kennt honum hvað raunveruleg sultartilfinning er.

Ég er þó hrædd um að ég brygðist ekki við með því að svelta mig - ef ég fyndi ekkert matarkyns í bókinni sem gaman væri að prófa og ég orðin sársvöng myndi ég eflaust leggja frá mér söguna og líta aldrei í hana aftur, nema þá helst seint á aðfangadag þegar ég væri örugg með að vera södd, harhar.