miðvikudagur, 25. janúar 2006

Tappatogarinn

Í gærkvöldi um hálftíuleytið var bankað á útidyrahurðina. Við áttum svo sem ekki von á neinum, sátum bara í sakleysi okkar og kjömsuðum á kúskúsi sem Ásdís hafði galdrað fram. Ég arka til dyranna eins og ég var klæddur (með svuntu) og er það þá gaurinn í íbúðinni fyrir ofan að biðja um tappatogara. Hann var pínuhissa að sjá mig svona með svuntu og spurði hvort ég væri að elda. Ég kvað að svo væri ekki og jókst þá undrunin í svipnum en málið var ekki rætt frekar.

Nokkuð skondið að hann skyldi banka uppá hjá okkur þar sem við erum sennilega eina fólkið í húsinu sem bragðar ekki áfengi. En jújú við áttum tappatogara og glaðnaði heldur betur yfir kauða.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem við erum beðin um tappatogara því þegar við bjuggum á Eggertsgötunni var nokkrum sinnum bankað uppá og spurt eftir tappatogara. Tappatogari bjó ekki hjá okkur þá en við fundum hann hér í nágrenninu þegar við vorum nýflutt og spauguðum með það að nú værum við undirbúin ef einhver bæði um tappatogara. Og viti menn...

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

En sniðugt! Þið eruð eins og skátarnir, ávallt viðbúin...

ásdís maría sagði...

Nákvæmlega!