Á vefnum karneval.dk las ég mér til um fastelavn. Þar segir m.a. að nú til dag sé um að ræða hátíð fyrir börn en svo hafi þó ekki alltaf verið. Orðið fastelavn þýðir nefnilega föstuinngangur og vísar til nákvæmlega þess, þ.e. hátíðar sem á sér stað áður en fasta hefst. Þessi hátíð á rætur að rekja til miðalda þegar Danmörk var kaþólsk og trúarföstur tíðkuðust í ríkari mæli í Vesturheimi en nú til dags. Þá lagði fólk í 40 daga föstu sem vísaði til hinna 40 daga sem liðu frá því Kristur var grafinn og þar til hann steig upp til himna. Áður en fastan hófst var sem sagt slegið upp í allsherjar veislu - fastelavn - þar sem fólk kom saman og dansaði, lék og borðaði góðan mat.
Eins og gefur að skilja hefur mikil hefð skapast í kringum þessa hátíð; börnin vekja foreldrana með bolluvendi, klæða sig í allra kvikinda líki, slá köttinn úr tunnu og borða fastelavnboller. Við vildum ekki vera eftirbátar Dana á þessum degi og byrjuðum því daginn á því að kíkja til bakarans á horninu og kaupa fastelavnsboller. Við kíktum síðan á Kultorvet og fylgdumst með smáfólkinu slá köttinn úr tunnu. Þegar það tókst kom í ljós að köttinn vantaði (sem betur fer) en úr tunnunni streymdu nammipokar í staðinn.
Hvað skemmtilegar fígúrur snertir var af nógu að taka; þarna voru tígrisdýr og kolkrabbi, asninn Eyrnaslapi og flóðhesturinn úr Wulffmorgenthaler, nokkur stykki ofurhetja eins og Batman, Súperman og Ninja skjaldbaka, prinsessur og indíánar, sjóræningjar og nornir, gíraffar og prinsa. Á Strikinu sáum við þó tvímælalaust flottasta grímubúninginn: jögglara á einhjóli. Mig grunar þó að kauði myndi jöggla á einhjóli hvort sem um fastelavn væri að ræða eður ei.
Þessi var Pony hestur með bleika vængi og kröftuga sveiflu
Þessi var kotbóndi frá Íslandi
Þessi með hattinn og slörið stjórnaði með harðri hendi
Á einhjóli
3 ummæli:
Kotbóndi hvað? Illa farið með góðan mann. Ef ég hefði setið við lyklaborðið sjálfur hefði ég skrifað eitthvað á þessa leið: Myndarmaður dulbúinn sem ásinn Baldur, goð fegurðar og ýmissa dyggða. Já ég hefði skrifað eitthvað svona látlaust og einfalt en ekki kotbóndi ;o)
Já elskan mín, þú ert ansi fallegur og svo ertu svona líka dyggðugur alltaf hreint, satt er það. En samt líka soddan kotbóndi, stend við'a.
Athygli mína vakti að vörpulegasti og eigulegasti karlmaðurinn á þessum fallegu götumyndum er með bretónskan fána um hálsinn.
Skrifa ummæli