Ég mætti í fyrsta tíma annarinnar í dag. Það var reyndar hrein heppni að ég skildi yfirhöfuð mæta þar sem ég taldi víst að tímarnir í námskeiðinu hæfust ekki fyrr en þann 9. Af algjörri rælni álpaðist ég inn á síðu námskeiðsins og sá þá að fyrsti tími hæfist eftir tvo tíma. Það svigrúm nægði mér sem betur fer til að koma mér niður á Snorresgade og inn í kennslustund í tæka tíð.
Námskeiðið sem um ræðir kallast The Asian Mystique og er kennt við Institut for Tværkulturelle og Regionale Studier, Afdeling for Asienstudier, nánar tiltekið Sydøstasienstudiet. Í námskeiðinu er skoðað hvernig Asía og Asíubúar hafa verið sýndir og hvaða mynd hefur verið dregin upp af þeim á Vesturlöndum í kvikmyndum og skáldskap.
Það felur að sjálfsögðu í sér að við komum til með að lesa nokkrar skáldsögur og horfa á kvikmynd í hverjum tíma, t.d. The Good Earth (Gott land) eftir Pearl S. Buck og James Bond myndina You Only Live Twice. Mikið verður það gaman! Ég hlakka virkilega til þess að rífa nefið aðeins upp úr fræðibókunum og prufa annars konar nálgun að námi.
Ein af aðalbókum námskeiðsins kallast The Asian Mystique: Dragon Ladies, Geisha Girls, & Our Fantasies of the Exotic Orient. Ef eitthvað er að marka titilinn virðist mér hér vera komin áhugaverð bók og er ég ansi spennt að hefja lesturinn.
1 ummæli:
Jamms kjamms. Á tvær bækur eftir Pearl S. Buck. Maður fékk smá innsýn í kínverskan hugsunarhátt við að lesa þær. Svakalega langt síðan ég las þær samt.
En hvað segiði um að koma í heimsókn bara núna um helgina...? Þetta gengur ekki lengur!!
Skrifa ummæli