Við höfum verið óvenju vel með á nótunum þessa helgina. Í gær horfðum við á undankeppni íslensku eurovision keppninnar og vorum sátt að sjá Sylvíu Nótt komast áfram. Veit þó ekki hvort ég sé til í að hún fari alla leið til Aþenu en það er víst ekki í mínum höndum þar sem ég kem ekki til með að taka þátt í símakosningunni þann 18.
Við horfðum einnig á spurningaþáttinn Tíminn líður hratt og ég er ekki frá því að heimþrá hafi hellst yfir mann á þeirri stundu. Svo enduðum við kvöldið á að horfa á Spaugstofuna en það hef ég ekki gert í háa herrans tíð. Ég veit ekki hvort það sé til marks um fyrrnefnda heimþrá, breytt skopskyn, bætt vinnubrögð Spaugstofumanna eða aldurinn að færast yfir en hvað sem það var þá hafði ég mjög gaman af Spaugstofunni! Síðast þegar ég hafði gaman af þessum fimm vitlausuköllum var þegar þættirnir kölluðust á Stöðinni, man best eftir 89' á Stöðinni.
Í dag fengum við síðan í fyrsta sinn heim í hús Politiken og lágum yfir því í dag. Við ákváðum nefnilega á dögunum að taka dönskunámið fastari tökum og keyptum okkur þriggja mánaða helgaráskrift að blaðinu. Það góða við blaðið er að það kemur í mörgum aðskildum lögum svo ég get verið að lesa fréttirnar eða gluggað í menningarblaðið meðan Baldur kíkir í Søndagsliv eða Videnskab & Debat.
Til að setja punktinn yfir i-ið horfðum við svo á fréttir RÚV í kvöld. Það voru að vísu fréttir gærdagsins þar sem tengingin okkar ræður ekki við að horft sé á fréttirnar í beinni en það breytir ekki öllu. Kannski maður fari svo bara að venja sig á að kíkja á fréttir DR1, það væri þá í takt við ætlun okkar að tala betri dönsku. Það væri hins vegar algjör bónus/hliðarverkun að verða betri að sér í heimsmálunum.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli