föstudagur, 10. febrúar 2006

Út um gluggann á strætó

Mér finnst mjög notalegt að sitja í strætó og glápa út um gluggann á borgina: byggingar sem æða framhjá, hjólandi fólk og gangandi vegfarendur. Maður veitir ýmsu athygli sem maður einfaldlega sér ekki þegar maður hjólar um. Allt í einu tekur maður til dæmis eftir huggulegu kaffihúsi og einsetur sér að kíkja þangað einhvern daginn eða veltir vöngum yfir því hvers konar varningur sé í boði hjá kínverska kaupmanninum.

Svo ef maður þreytist á því að gjóa augum að verslununum má alltaf virða fyrir sér samferðafólkið sem hjólar samsíða vagninum. Það gerði ég einmitt um daginn með það í huga að sjá hver tískan í kvenskófatnaði væri um þessar mundir. Ég varð þess meðal annars vísari að margar konur klæddast loðnum skinnstígvélum sem ná hálfa leið að hnjám. Þó mér finnist það smart þá er það ekki alveg minn stíll.

Þessi könnun leiddi einnig í ljós að enn fleiri klæðast hefðbundnum leðurstígvélum en þeim hef ég alltaf verið skotin í. Ég hef gert heiðarlegar tilraunir til að eignast slík stígvél og á mínum unglingsárum lagði ég reglulega leið mína í vinnuna til pabba til að kíkja til skóheildsalans sem var í sama húsi. Sá lofaði í hvert sinn að leðurstígvélin, sem ég hafði augastað á, kæmu í vikunni á eftir en allt kom fyrir ekki, ég fékk aldrei blessuð stígvélin.

Það vill svo til að við ætlum í bæjarferð á morgun, kannski ég láti slag standa og drauminn rætast.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Eg held þau komi í næstu viku

ásdís maría sagði...

Ábyggilega :0)