Við Frederikssundvejbúar lifum vægast sagt viðburðarríku lífi. Til dæmis stefndi þetta laugardagskvöld jafnt og þétt í að verða ósköp rólegt kósí bíókvöld heima í stofu og snemma í háttinn.
Þau plön fóru vitanlega út um þúfur þegar ég, Sérlákur Holmes, byrjaði að horfa út um stofugluggann og rannsaka mannlífið. Rak ég þá haukfrán augun í logandi kerti á rakarastofunni á móti (ái) og ekki sála á svæðinu.
Ég sýni Dr. Watson óhugnaðinn og ákváðum við að gera lögreglu viðvart í (kerta) ljósi þess að öll gólf á næstu fjórum hæðum fyrir ofan eru úr timbri. Þeir á stöðinni tóku ábendingunni vel og sendu menn á svæðið sem ég svo fjarstýrði af svölunum.
Þar sem ég stóð á svölunum hef ég sjálfsagt minnt á geðsjúklinginn Neró því ég hafði brugðið á það ráð að vefja rauðu flísteppi um mig miðjan til að kuldinn biti síður á mig. Lögreglumennirnir, greinilega ýmsu vanir, létu sér hvergi bregða. Þeir stóðu svo smá stund og horfðu á kertin í gegnum glerið meðan þeir töluðu í talstöðvar og gáfu rapport.
Nú eru þeir farnir og stöndum við Watson í glugganum og bíðum átekta. Ekki hyggjum við á langa bið því við höfum þegar gert skyldu okkar sem leynilögreglur hverfisins.
2 ummæli:
Var Moriarty þar á ferð?
Við dr. Watson erum ekki frá því að Moriarty þykist vera rakari þessa dagana. En eins og ég sagði við dr. Watson: He is the Napoleon of crime, Watson...
http://www.sherlockian.net/world/moriarty.html
Skrifa ummæli