sunnudagur, 2. apríl 2006

Himnaför

Ég nýtti mér tækifærið fyrir nokkru og pantaði mér tvær bækur af netbókaútsölu. Bækurnar voru síðan sendar á lögheimilið á Íslandi og var hugmyndin að þær fengju far með hverjum þeim sem ætti næst leið frá Íslandi til Kaupmannahafnar. Svo heppilega vildi til að það var einmitt PG og kom hann færandi hendi með böggulinn mér til mikillar gleði. Kann ég honum bestu þakkir fyrir.

Önnur bókanna er Himnaför eftir kínverska rithöfundinn Xinran, en hún skrifaði einnig bókina Dætur Kína. Ég byrjaði að lesa Himnaförina í gær og lauk henni í dag enda auðlesin bók sem gaman er af. Sagan er um kínverska konu, Shu Wen, sem leggur upp í mikið ferðalag til Tíbet í leit að eiginmanni sínum sem henni hafði verið tjáð að fallið hafði í átökum milli Kínverja og Tíbeta. Á ferð sinni lendir hún í hremmingum en er svo gæfusöm að vera tekin undir verndarvæng tíbeskrar hirðingjafjölskyldu.

Lýsingar á lifnaðarháttum hirðingja í Tíbet eru áhugaverðar og sagan vissulega skemmtileg. Mest um vert þótt mér þó að sagan kveikti ferðaþrá í mér. Kannski maður kíki einhvern tímann til Tíbet, hver veit?

Engin ummæli: