Ég byrjaði að greina viðtölin úr MA rannsókninni í dag. Þar sem planið, sem ég útbjó um hvernig-skal-klára-MA verkefnið, gerði ráð fyrir þessu má segja að ég sé alveg á áætlun. Reyndar greini ég bara eitt viðtal í einu, vitaskuld, annað væri til þess fallið að rugla mig alveg í ríminu.
Svo ég útskýri aðeins hvað ég á við með að greina viðtöl: Viðtölin sem ég tók á tímabilinu september 2004-júní 2005 afritaði ég orð frá orði eins og lög eigindlegra rannsóknaraðferða gera ráð fyrir. Síðan prentaði ég þau út og var komin með hálfgert handrit í hendurnar. Þegar ég greini viðtölin er ég í raun að lesa þessi handrit spjaldanna á milli, lesa í þau, lesa milli línanna, finna þemu og kóða þau. Þetta geri ég allt eftir kúnstarinnar reglum.
Þessi fyrsti dagur í greiningu gagna snerist fyrst og fremst um að lita og því skemmti ég mér stórvel. Ég nota yfirstrikunarpenna í ýmsum litum til að aðgreina textann og hver litur táknar ákveðið þema. Þetta auðveldar og flýtir fyrir mér þegar ég síðar meir þarf að hafa yfirsýn yfir öll viðtölin.
Þessi fyrsti dagur gagnagreiningar var ekki síður skemmtilegur fyrir þær sakir að ég kveikti á kertum hér og þar í íbúðinni, hellti upp á bláberjate og útbjó mér ávaxtabakka til að hafa við höndina. Svo kom ég mér fyrir í hægindastólnum og tók til við að lesa og lita. Það er ekki á hverjum degi sem maður gerir það.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli