Í dag var óvenjumikið fjör hjá okkur Nordvestlingum. Eins og allir vita er skírdagur en auk þess fengum við skemmtilega heimsókn frá Tælandi og fórum með gestunum í skemmtilega heimsókn á litla eyju hér í nágrenninu.
Þegar við komum heim úr gymminu í hádeginu heyrðum við hróp og köll og voru það þá Pétur og Valeria sem voru mætt á svæðið í fylgd Sigga og Soffíu. Við tókum að sjálfsögðu ítarlega skýrslu af ferðalöngunum og ekki voru mótmælin hávær þegar Pétur heimtaði að fara í bakaríið og redda einhverju með kaffinu, enda ekkert til frekar en fyrri daginn og yfirheyrslur á fastandi maga vitagagnslausar og ómannúðlegar.
Nokkrum rúnstykkjum og alls konar slumsi síðar var ferðinni heitið á Froskaheimilið. Þar fengum við góðar móttökur og að vanda heillaði Áslaug Edda nærstadda með ýmsum trikkum sem hún lumar á. Náðum við einnig enn meiri upplýsingum upp úr ferðalöngunum og kom það sér vel þar sem við erum í óða önn að undirbúa landvinninga vora í Asíu. Eins og Leonard Cohen söng first we take Pondicherry, then we take the rest. Eða var það kannski aðeins öðruvísi?
Hratt líður stund þá gaman er. Áður en við vissum af var dagurinn liðinn og Pétur og Valeria farin að sýna á sér fararsnið. Við fylgdum þeim á brautarstöðina og náðum meira að segja að stúta nokkrum falafelum á leiðinni en þau eru sérdeilisgóð hjá King of kebab á Nørrebrogade, það er hvítlaukssósan sem gerir gæfumuninn.
Á leið til froska
Engin ummæli:
Skrifa ummæli