miðvikudagur, 12. apríl 2006

Sögur úr ræktinni

Í ræktinni sem við sækjum liggja karla- og kvennaklefarnir samhliða og auk þess er hátt til lofts en engir veggir liggja að loftinu svo það heyrist vel á milli klefanna. Það gerir það að verkum að ég heyri ef Baldur er að spjalla við einhvern. Ég heyri líka ef hárþurrkan í karlaklefanum fer í gang, þá veit ég að Baldur er að þurrka á sér tærnar.

Um sturtuklefana gildi það sama, þeir eru hólfaðir af með álþili sem nær ekki alveg niður að gólfi og sánurnar eru samliggjandi. Þetta gerir það að verkum að við Baldur getum spjallað í sturtunni og sánunni ef við kærum okkur um.

Í dag bar svo við að sánan beggja megin var óvenjugóð og eftir svona góða æfingu fannst okkur kjörið að slappa aðeins af í hitanum. Við vorum á dauðum tíma í ræktinni svo við höfðum sitthvora sánuna út af fyrir okkur. Við notuðum því tækifærið og röbbuðum milli veggja.

Rétt áður en ég gat ekki meira vegna hitans heyri ég einhvern koma inn í sánuna til Baldurs. Ég heyri líka að Baldur byrjar aðeins að spjalla en kauði tekur fálega undir kveðjur hans. Eftir æfingu fékk ég síðan að heyra hvernig í málunum lá. Þegar ég stóð upp til að fara úr sánunni kvaddi ég Baldur gegnum þilið. Þegar gaurinn heyrir í mér tekur hann viðbragð, lítur á Baldur og segir: Mikið er ég feginn að þú varst ekki að tala við sjálfan þig allan tímann, ég hélt þú værir stórundarlegur!

Engin ummæli: