miðvikudagur, 24. maí 2006

Potterbrauð

Undanfarna daga hef ég verið algerlega óviðræðuhæfur þar sem sjötta bókin um Harry nokkurn Potter hefur haldið mér ansi uppteknum. Ekki vil ég ljóstra neinu upp um plottið þar sem ekki hafa allir heimilismeðlimir lesið bókina.

Á milli þess sem ég gleypti Potter bókina í mig bakaði ég brauð. Ellert vinur minn gaf mér svo skrambi þægilega uppskrift að brauði og það besta er að það tekur aðeins um 10 mínútur að undirbúa það og svo bara beint í ofninn. Ég hef með smá tilraunamennsku komist niður á þessa útgáfu:

3 dl heilspelt
2 dl hveiti/spelt
2-3 teskeiðar af vínsteinslyftidufti
1 teskeið af salti
2 dl sjóðandi vatn
2 dl súrmjólk/ab-mjólk (má líka nota sojavörur)
1 dl hvaðsemer, ég hef notað 5 korna blöndu, múslí og döðlur með góðum árangri

Ofninn skal stilltur á 200°C og er ráðlegt að pota í brauðið með prjóni eftir svona 30-40 mínútur. Þegar það er svo orðið sæmilega bakað í gegn tek ég það úr forminu og hendi því inn í 5 auka mínútur til að fá extrafína skorpu á allt brauðið.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þetta er skemmtileg uppskrift en hvað er eiginlega vínsteinslyftiduft?

baldur sagði...

Það fæst m.a. í Heilsuhúsinu og Fjarðarkaupum. Þetta er víst það sem situr eftir þegar vínberjasafi verður að víni. Meira um það hér: http://www.culinarycafe.com/Spices_Herbs/Cream_Tartar.html
Semsagt svar heilsufugla við hefðbundnu lyftidufti. Það er samt líka hægt að nota venjulegt lyftiduft í uppskriftina.

Móa sagði...

ég var einmitt að spá í þessu vínsteinsdæmi en þetta virðist mjög fín uppskrift. Ætla prufa hana um leið og ég finn hið fyrrnefnda lyftiduft:)

baldur sagði...

Á hollensku heitir það: wijnsteenbakpoeder. Það veit ég því að stöffið sem ég er með er frá Hollandi. Kannski heitir það eitthvað svipað á þýsku.