Lærdómur hefur verið ofarlega á blaði að undanförnu, ritgerðarskrif hjá báðum. Á þessum sólríka degi gáfum við okkur þó smábreik, áttum hvort eð var erindi niður í bæ. Það var steikjandi hiti og ef þið hafið lesið fréttir af allsberum manni á reiðhjóli þá var það sennilega ég. Mér var a.m.k. skapi næst að kasta af mér klæðum en lét mér nægja að bretta upp á buxurnar.
Eftir erindagjörðir ákváðum við að kíkja í garð sem heitir Østre Anlæg og liggur rétt við Statens Museum for Kunst. Það var svo mikið af börnum þar að við vorum ekki viss hvort fullorðnir væru leyfðir en svo sáum við fullorðnar endur og vörpuðum þeim léttar.
Skömmu eftir að við komum inn á svæðið fundum við frænda Loka (bátur sem familían átti einu sinni) og ákváðum að skella okkur í stórferð. Að fyrirmælum kafteinsins yfirfór ég akkerisvindu, björgunarbáta, stórsegl og fokku og athugaði hvort nokkuð vatn væri í kjalsogi. Þvínæst tryggði ég að leiðarsteinninn væri um borð. Þá var hægt að leggja úr höfn.
Þetta var sannkallað happafley og klauf hvítfreyðandi grasöldutoppana tignarlega. Dagurinn var vel til siglinga fallinn og er ég ekki frá því að ég sé kominn með vísdómshrukkur, svo sjóaður er ég eftir að hafa verið háseti hjá kafteini Ásdísi á Largó. Nafn nökkvans er dregið af Loka og Argó.
Komumst örugg til hafnar á ný og teymdum hjólin um garðinn, pikknikkuðum á bekk og já, tókum myndir. Sáum að einhver listamaðurinn hefur tekið það ansi bókstaflega að skera út í tré, flatbökuðumst aðeins við hliðina á því. Til að ná svo úr mér sjóriðunni stóð ég á haus um stund, sérdeilis gott.
Ekki fullorðinsgarður?
Jú, greinilega fullorðinsgarður
Kafteinninn á Largó
Land á stjórnborða!
Kafteinninn fylgist með áhöfninni vinna
Rósahaf
Tréskurður
Sjóriðan flæmd út
3 ummæli:
Góður!
Hafði líka góða fyrirmynd.
Flottir báðir... ;-)
Skrifa ummæli