Í lok vinnudagsins síðustu þrjá daga höfum við hendst úr vinnufötunum og gengið í hlutverk túrhestsins. Á miðvikudaginn kíktum við t.d. á indverskan matsölustað á Enghavevej og fengum okkur grískt fetaostssalat, aloo gobi og sterkar samósur með mynturaitu. Eftir það bættumst við hóp annarra ferðamanna í dýragarðinn, fengum okkur soft-ice og heilsuðum upp á ljónin, tígrisdýrin og ísbirnuna sem öllum var afskaplega heitt.
Í gær hjóluðum við síðan beint úr vinnunni niður á Amager Strandparken. Sjórinn var þægilega svalur og veitti okkur ekki af eftir vinnudaginn. Við borðuðum síðan á Den Grønne Kælder þar sem við smökkuðum æðislegan hummus, kíktum í örheimsókn til froskanna og lögðum okkur svo í skugganum af stóru tré í Kongens Have.
Í dag langaði okkur að kíkja í bókabúð og héldum því rakleitt eftir vinnu niður á Strikið þar sem við eyddum drjúgum tíma í bókabúðinni Gad. Búðarrápið bar ávöxt því við urðum spennt fyrir bókinni The mind gym og keyptum hana. Þar sem við höfðum planað pikk-nikk í Kongens Have fórum við í bakaríið í Magasin du Nord til að redda eftirrétti og svo til hennar Charlotte í Lotte's Sandwich Bar til að fá okkur aftur þessar dýrinds vegi-samlokur sem við fengum á flutningsdeginum stóra.
Þegar ég bað Lotte um að sleppa ólívunum á minni samloku spurði hún að bragði: og súrar gúrkur í staðinn? Hún mundi sem sagt eftir okkur frá því seinast og það sem meira er um vert, hún mundi eftir öllum sérviskum. Fær hún ekki plús í kladdann fyrir það?
2 ummæli:
Alveg á hreinu að þangað kíkjum við aftur og aftur og aftur...
Og svo einu sinni enn!
Skrifa ummæli