fimmtudagur, 6. júlí 2006

Eitt ár

Það var allt að gerast fyrir ári síðan: við undirrituðum leigusamning að íbúðinni sem við nú búum í og keyptum flugmiða til Kaupmannahafnar. Á þessum tímapunkti var allt á fullu því við áttum eftir að pakka niður og ég var með þungar áhyggjur af þessu öllu saman. Svo blessaðist þetta allt svona ljómandi vel.

Þegar við fluttum síðan út hugsaði maður með sér að það væri svo langt í að maður flytti aftur til baka að maður trúði því nánast að það kæmi aldrei að því. Nú finnst mér hins vegar óþægilega farið að styttast í brottför frá Kaupmannahöfn og ég get ekki hugsað það til enda að búa hér ekki lengur. Hér hef ég átt eitt besta ár ævinnar svo þetta hlýtur að vera besti staður í heimi.

Og nú verð ég að biðja viðkvæma lesendur að hætta að lesa því ég ætla að blóta smá: ég sakna Íslands bara ekki neitt! Ekki einu sinni heitu pottana. Eða öllu heldur einna síst heitu pottanna. Það er nefnilega tæplega 30°C hiti og skínandi sól í Köben.

Engin ummæli: