Við kíktum til Andra og Snjólaugar í gærkveld, bæði til að hitta þau og heilsa upp á gæludýr heimilissins, hana Össu litlu. Sem betur fer fyrir Baldur flögraði hún ekkert um heldur lét sér nægja að sitja á fingri eða öxl.
Þau skötuhjú plötuðu okkur í pókerspil. Ég var eitthvað hikandi í fyrstu enda alltaf hálftreg til að læra ný spil. Eftir nokkra leiki var ég hins vegar komin í góðan gír enda búin að draga fram einhverja veðmálsótemju sem ég vissi ekki að blundaði í mér.
Í stuttu máli sagt æfði ég mig til hins ýtrasta í listinni að blöffa og veðjaði spilapeningum mínum fyrir vikið ansi hratt. Sama gerði Baldur og að endingu neyddumst við til að fá lánaða spilapeninga frá hófsamari gestgjöfum okkar til að geta haldið spilamennskunni áfram.
Niðurstaða kvöldsins var sú að í fyrsta lagi er beginner's luck ekkert annað en míta sem mér tókst að kippa stoðum undan og í annan stað er popp úr potti og sleepy time gott pókersnarl.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli