þriðjudagur, 9. janúar 2007

Heimilið er þar sem sængin er

Eins og kom í ljós á fyrsta degi okkar í Bangalore tíðkast ekki að kynin gisti í sama húsi, hvað þá sama herbergi. Aiesec í Bangalore gerði víst tilraun með það á sínum tíma en kvartanir frá nágrönnum, sem kváðust fá fyrir brjóstið við að sjá pör kyssast á svölunum, urðu til þess að bundinn var endir á þá tilraun. Fyrir vikið búum við Balduro mio í sitthvoru lagi í fyrsta skipti í tæp sex ár.

Ég verð nú að viðurkenna að ég varð frekar pirruð þegar þetta kom í ljós enda höfðum við pakkað niður með rýmissparnað í huga og í þeirri trú að við byggjum saman allan tímann. Þannig vorum við aðeins með einn sjampóbrúsa, eina kroppasápu, eina túpu af body lotion og einn tannbursta (nei djók).

Núna aftur á móti er ég farin að hafa lúmst gaman af þessum sporum sem við skötuhjú erum í. Húsið sem ég bý í hefur öryggisvörð sem hleypir engum inn nema leigendum sem eru allt stelpur, herbergið mitt hefur sturtu sem ekki virkar og heita krana sem hleypir út óheitu vatni. Herbergisfélagar eru tveir: ein indversk stelpa sem kemur heim um miðjar nætur og sefur um miðjan daginn og svo indversk stelpa sem róterast, á fjórum dögum hafa þrjár mismunandi stelpur gist í herberginu. Þess fyrir utan eru allir leigendur mjög einangraðir í sínum herbergjum og aldrei hræðu að finna í sameiginlega rýminu.

Af þessum sökum eyði ég öllum frítíma mínum heima hjá Baldri. Eftir vinnu fer ég rakleitt til Baldurs, þar borðum við og sósjalíserum við aðra Aiesecera og þegar kominn er háttatími fylgir Baldur mér heim eins og sönnum herramanni sæmir. Þar býður mín síðan það eina sem skiptir mig máli: sængurverið mitt sem ég get bómullarperrast með og rósótta teppið sem ég prúttaði niður í 250 rúpíur.

Engin ummæli: