sunnudagur, 11. febrúar 2007

Dagurinn sem ekkert varð úr

Klukkan níu í morgun vorum við Baldur mætt fyrir utan Mittel Towers. Á döfinni var að kíkja í Bandipur þjóðgarðinn sem liggur suður af Bangalore með Fernandes, Mariu og Pernille.

Við biðum í rétt tæpan einn og hálfan tíma eftir þeim. Fyrst sátum við hjá blómabeðunum, síðan stóðum við upp til að hreyfa dofna liði og loks settumst við á tröppur í sólinni til að verma okkur eftir setuna í skugganum.

Loksins mættu þau á svæðið og höfðu þá ástæðu fyrir seinheitunum. Pernille var veik og þau höfðu drifið sig með hana á sjúkrahúsið. Eins og Fernandes er einum lagið hafði hann ekki símanúmerið mitt meðferðis þó ég væri búin að láta hann fá þetta fyrir svona tilvik (arg).

Þar sem Pernille varð að fara heim og leggjast fyrir datt ferðin í þjóðgarðinn upp fyrir. Í staðinn skutlaði Fernandes okkur þremur sem eftir sátu upp í Forum, stærstu verslunarmiðstöð Bangalore. Þar fengum við okkur að borða (Masala dosa), skoðuðum í búðarglugga og kíktum í bókabúð að sjálfsögðu.

Þegar heim var komið versluðum við í Thom's bakery, borðuðum samósur og elduðum spagettí með pastasósu. Á degi sem mikið varð að engu væri einkar viðeigandi að horfa á snilldarmyndina Much Ado About Nothing en það er einmitt það sem við ætlum að gera.

Engin ummæli: