föstudagur, 9. febrúar 2007

Legið yfir kortum

Indlandsferðin var skipulögð í dag. Við komum okkur vel fyrir við þunglamalega viðarborðið í Robertson House, dreifðum úr Indlandskortinu og flettum upp í Indlandsbókinni okkar.

Þegar dvöl okkar í Bangalore lýkur í byrjun mars byrjar bakpokaferðalagið okkar. Þó svo að mottóið okkar sé að skipuleggja sem minnst verður maður að vita í hvaða átt skal stefna næst og svoleiðis skipulagsvinnu er gott að klára þegar maður hefur fasta búsetu og gott viðarborð.

Gróflega áætlað höldum við austur til Chennai eftir Bangalore, síðan í suður og loks í norður til Himalayafjallanna. Miðað við alla áfangastaðina á leiðinni getur ferðalagið um Indland tekið allt að þremur mánuðum. Það mætti ljúga því að mér að þessi skipulagsvinna hafi tekið þrjá mánuði, svo lengi lágum við yfir kortunum. Hluti af ástæðunni liggur í því að við vorum alltaf að leita að fyndnum bæjar- og borgarheitum. Leitin bar ágætan árangur, eins og best sést hér að neðan:

Mandla í Madhya Pradesh
Panna í sama fylki
Mandsaur í sama fylki
Latur í Maharashtra
Washim í sama fylki
Banka í Bihar
Punch í Jammu Kashmir
Lucknow í Uttar Pradesh

Engin ummæli: