miðvikudagur, 28. mars 2007

MM og ómkórinn

Miðja og sál Auroville er gullkúla sem kallast Matri Mandir (MM). Um er að ræða hugleiðslukúlu sem ætluð er til hugleiðslu, íhugunar og einbeitingar. Um daginn fórum við í fyrstu heimsókn að MM og fengum þá aðeins að skoða það utanfrá og ganga um nærliggjandi grundir. Í dag fórum við síðan í sýnisferð inn í MM og inn í sjálfa hugleiðsluhvelfinguna (inner chamber).

Það er óhætt að segja að það sé geggjað umhorfs þar inni. Loftið er svalt og dimmt, á gólfum erum ljós teppi og stórum setpullum er raðað í hring kringum risastóra glerkúlu. Ofan úr loftinu skín síðan samþjappað sólarljós ofan á og í gegnum kúluna og í myrkrinu líkist það helst því sem maður sér í geimverumyndum þegar dyr geimskipsins opnast og geislinn ógurlegi tekur að bíma fólk upp til sín.

Hluti af heimsókninni í MM er 15 mínútna hugleiðsla inn í hvelfingunni. Eins og áður segir eru hvít teppi á gólfi og er það vel því þarna ómar allt svo afskaplega. Ef fólk þarf að ræskja sig endurkastast lætin milli súlna og veggja og allir verða vandræðalegir. Svo má ekki gleyma að minnast á að allir gestir verða að klæða sig í hvíta sokka áður en þeir ganga inn í MM til að skíta ekki út hvítan marmarann, harhar.

Eftir þessa hugleiðsluheimsókn var viðeigandi að næsta stopp væri við friðarborðið. Þaðan héldum við síðan í samfloti við Ingibjörgu og Víði í svokallaðan ómkór, kór þar sem fólk ómar saman. Fyrst voru gerðar nokkrar raddæfingar sem ég hafði gaman af og síðan tók við ómið sjálft og var ómað restina af æfingunni.

Það er mergjað að finna hvernig röddin getur fengið allt innra með manni til að víbra. Það var líka alveg mergjað að sitja með lokuð augun í dvínandi dagsbirtunni og opna þau síðan í næturmyrkri og skímu frá tendruðu kerti.

Engin ummæli: