miðvikudagur, 11. apríl 2007

Í Kochi

Tókum hádegisrútu frá Alappuzha í gær til bæjar að nafni Kochi. Bærinn var stofnaður árið 1341 í kjölfar flóðs sem myndaði afar heppilegt hafnarstæði og óx hann hratt. Hingað komu innflytjendur frá Mið-Austurlöndum, kristnir, múslímar og gyðingar, varð úr því menningarpottur mikill með góðum viðskiptamöguleikum til út- og innflutnings.

Evrópubúar í nýlendusnuðri voru snöggir að átta sig á þessu og hófust afskiptin snemma á 16. öld, fyrst Portúgalir, svo Hollendingar og að lokum Bretar. Evrópskra áhrifa gætir á svæðinu þó nýlenduherrarnir séu auðvitað löngu dauðir eins og hollenski kirkjugarðurinn ber með sér.

Bænum er skipt niður í nokkrar einingar: Ernakulam, Mattancherry, Fort Cochin, Jew Town og Willingdon Island. Ernakulam er stærst og er henni lýst sem aðalborg Keralafylkis. Fort Cochin, Mattancherry og Jew Town eru hins vegar mun æskilegri fyrir ferðfólk sem þegar hefur fengið sinn skerf af indverskum stórborgum.

Ferðin hingað var ekki alveg jafnljúf og bátsferðin um stöðuvötnin þar sem við þurftum að standa upp á endann alla leiðina, í hita, raka, sikksakki og mannþröng. Allt blessaðist nú samt og komumst við heilu og höldnu á rútustöðina í Ernakulam og fórum með fyrstu ferju þaðan til Fort Cochin. Fengum inni á ódýrri heimagistingu með útsýni yfir fallegt svæði og rétt við hina gullfallegu Santa Cruz kirkju.

Fyrsta kvöldið okkar í Kochi fórum við út að borða á útiveitingastað. Þegar við vorum nýsest komumst við að því að við höfðum verið elt alla leið frá Alappuzha, Þruma var mætt á svæðið. Fyrst blikkaði himininn lítillega og nokkrir sakleysislegir dropar úðuðu sér á okkur. Þjónninn kom til allrar hamingju með risastóra sólhlíf sem bjargaði okkur og kvöldmatnum frá því úrhelli sem fylgdi í kjölfar úðans ásamt fjölda eldinga og þruma.

Ekki var hlutverki regn/sólhlífarinnar lokið eftir matinn því þjónninn góði bað okkur að taka hana með heim svo við yrðum ekki hundvot. Þetta snjallræði gerði kvöldið ógleymanlegt því hvar sem við fórum rak fólk upp stór augu og ýmist brosti eða skellihló. Sú manneskja sem hló mest af þessu uppátæki var þó Ásdís sem varla gat gengið fyrir hláturrokum. Yndislegt þrumuveður!

Engin ummæli: